Spurt og svarað

05. júní 2009

HELLP heilkenni

Góðan daginn!

Ég eignaðist barn nú á dögunum og var undir nánu eftirliti út af HELLP heilkenni á byrjunarstigi. Ég er í landi þar sem ég tala ekki málið og skil því ekki alveg út á hvað þetta gengur og er búin að reyna að finna mér skiljanlegar upplýsingar á netinu en gengur brösuglega. Getið þið sagt mér hvað gerist þegar manneskja fær HELLP. Af hverju það er svona hættulegt? Er fylgst með manni eftir fæðinguna? Hefur þetta áhrif á næstu meðgöngu?

Kærar þakkir.


Sæl og blessuð!

HELLP heilkenni er sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli meðgöngunnar, oftast tengdur meðgöngueitrun. HELLP stendur fyrir Haemolysis (niðurbrot blóðkorna) Elevatad Liver enzymes (hækkuð lifrarensím) og Low Platlets (fækkun á blóðflögum). Þetta gerist yfirleitt í lok meðgöngu en getur gerst allt að 48 tímum eftir fæðingu og því er mikilvægt að móðir sé undir góðu eftirliti eftir fæðinguna. Þetta felur í sér talsverða hættu fyrir móður og barn aðallega vegna þess að storkukerfið starfar ekki sem skyldi og þess vegna er aukin hætta á alvarlegum blæðingum og einnig vegna þess að starfsemi lifrar og nýrna móður getur skerts og þessi líffæri geta einnig orðið fyrir skaða. Þar sem meðgöngueitrun er oftast til staðar fylgja einnig þær hættur sem henni fylgja fyrir móður og barn.

Það þarf að fylgjast sérstaklega vel með þér á næstu meðgöngu vegna þessa til að hægt sé að grípa inn í ferlið ef þarf (yfirleitt er mælt með framköllun fæðingar þegar þetta vandamál kemur upp). Það er líka mikilvægt að vera vakandi fyrir einkennum s.s. verk fyrir bringspölum (verkur hægra megin ofarlega í kvið), höfuðverk, ógleði, uppköstum, blóðmigu, gulu og ef blóðið þitt storknar óvenjulega hægt.

Vona að þetta svari spurningum þínum.

 

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. júní 2009.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.