Hitateppi á meðgöngu

20.09.2010

Halló kæru ljósmæður!

Ég er nýlega orðin ólétt af öðru barni mínu og er mjög spennt og glöð. Þegar ég var ólétt í fyrra sinn heyrði ég talað um að maður ætti ekki að vera of lengi í heitu pottunum, sérstaklega í byrjun meðgöngu, því það væri vont fyrir fóstrið að vera lengi í miklum hita. Því passaði ég mig alltaf að vera bara stutt í einu í pottunum en eftir að ég átti strákinn minn hef ég verið slæm í baki og er orðin það slæm að bakverkir trufla nætursvefninn minn. Til þess að sofa betur varð ég mér útum hitateppi til að liggja á en þá fór ég að hugsa hvort hitinn af því hefði áhrif á barnið sem ég nú er ólétt af líkt og ég hef heyrt að gerist í heitu pottunum. Hvað segið þið um þetta?

Kær kveðja, ólétt með bakverki.


Sæl og blessuð!

Þér ætti að vera alveg óhætt að nota hitateppi eða hitapoka við bakið. Þannig færðu staðbundinn hita í vöðvana sem ætti ekki að hækka líkamshita þinn. Hitateppi sem notuð eru til að sofa með ættu alltaf að vera þannig að þau slökkvi sjálfkrafa á sér eftir ákveðinn tíma vegna hættu á ofhitnun og bruna.

Það væri svo kannski ráð að hitta sjúkraþjálfara eða annan fagaðila vegna bakverkjanna. Kannski er hægt að hjálpa þér eitthvað með þá.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. september 2010.