Spurt og svarað

04. mars 2015

Hjartalaga leg!

Sælar, Ég er komin 29 vikur með annað barn. Ég er með hjartalaga leg og fór í bráðakeisara á 33 viku síðast. Núna langar mig alls ekki að fara í annan bráðakeisara, en ef barnið ákveður að koma í heiminn of snemma getur auðvitað vel verið að það sé ekkert val um annað. Alveg eins og síðasta barn er þetta sitjandi og litlar líkur á að það muni snúa sér úr þessu. Mér finnst læknirinn minn tala eins og það ætti nú ekki að vera mikið mál að fæða barnið, en ég bara get engan vegin trúað því og finnst að það sé alveg klárt mál að það myndi enda með bráðakeisara. Allt sem ég les um sitjandi fæðingar er á þá leið að það ætti að geta gengið upp ef allt er að öðru leiti eðlilegt en það er það bara ekki í mínu tilfelli. Ég vil helst af öllu fara bara í planaðan keisara í rólegheitum, bæði mín og barnsins vegna. Er það á einhvern hátt órökrétt eða ógáfuleg ákvörðun?

 
Heil og sæl, það er ekki neitt órökrétt né ógáfulegt við það sem þú ert að hugsa. Varðandi sitjandi fæðingar þá ganga þær oft mjög vel ef að barnið er hæfilega stórt og allt er gott. Þú ættir alveg að geta átt góða fæðingu sem gengur vel, þrátt fyrir hjartalaga leg. Hinsvegar ert þú áður búin að fara í keisara og þá er þröskuldurinn alltaf lægri á að gera keisaraskurð aftur. Það yrði aldrei reynt lengi á fæðingu hjá þér. Ef að upp koma einhverjir hnökrar yrði gripið inn í það fljótt. Ég mundi ráðleggja þér að tala við ljósmóðurina þína í mæðravernd og lækninn aftur og ræða málið betur. Auðvitað hefur þú síðasta orðið þegar kemur að því að ákveða hvaða leið verður farin í sambandi við fæðingaaðferð. Það hefur samt ótvíræða kosti að sleppa við keisaraskurð þó að ég skilji vel að þú sért pínu smeyk við það. Gangi þér sem best.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
04.mars 2015
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.