Hjólreiðar og samdrættir

29.04.2008

Mig langar að byrja á því að þakka fyrir frábæra síðu sem hefur eflaust hjálpað mörgum einstaklingum í gegnum hinar ýmsu hremmingar hehe.

Þannig er mál með vexti að ég er ófrísk ( 1. barn ) og komin 23 vikur á leið. Fyrir u.þ.b. 3 vikum fór ég að finna fyrir samdráttum öðru hvoru sem mér skilst að sé hinn eðlilegasti hlutur....En hins vegar er ég að spá hvort það sé eðlilegt að samdrættirnir stóraukist alltaf ef ég fer út að hjóla. Ég á hund og fer með hann reglulega í hjólreiðatúr á grýttum göngustíg sem er allur í holum og hæðum og ALLTAF fæ ég mikla samdrætti sem þó eru alveg verkjalausir.

Ætti ég eitthvað að endurskoða þessa hjólreiðatúra mína????

Kær kveðja...

Ein í hugleiðingum:)


Komdu sæl

Það er rétt að samdrættir eru hinn eðlilegasti hlutur á meðgöngu en þeir geta líka verið merki um að konur séu að ofgera sér og þurfi meiri hvíld.  Samdrættir ættu ekki að vera fleiri en 4 á klukkutíma og eins og þú lýsir þessu þá finnst mér að þú ættir eitthvað að endurskoða þessa hjólreiðatúra og vita hvort samdráttum fækki við það að fara t.d út að ganga með hundinn í stað þess að hjóla, eða vera á sléttum göngustígum.  Þú skalt líka passa þig að drekka vel af vatni því þurrkur eða þorsti getur líka aukið á samdrættina.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
29. apríl 2008.