Spurt og svarað

02. júní 2008

Áfengisneysla 5-11 dögum eftir getnað

Sælar!

Er í vangaveltum. Ég er komin u.þ.b. 7 vikur á meðgöngu. U.þ.b. 5-11 dögum eftir getnað fékk ég mér 5 bjóra í vinnuferð, var búin að taka próf og fékk neikvætt og því viss að ég væri ekki ólétt (með óreglulegan hring). Svo einhverjum dögum seinna fékk ég jákvætt og þetta hvílir þungt á mér, drekk sama og ekkert og þetta því ömurlegt. Er einhver nákvæmur dagur þar sem fóstrið byrjar að verða fyrir áhrifum af því sem fer ofan í móðurina?

Takk kærlega.


Sæl og blessuð!

Eins og þú greinilega veist þá er barnshafandi konum ráðlagt að halda sig algjörlega frá áfengisneyslu á meðgöngu þar sem ekki er hægt að segja til um það í hversu miklu magni né hvenær á meðgöngu áfengisneysla sé örugg. Það er þó vitað að ef barnshafandi kona neytir regluleg áfengis á meðgöngu eða drekkur mikið í einu þá hefur það verstu áhrifin á fóstrið. Þó ég vildi þá get ég ekki sagt þér að þetta sé bara allt í góðu lagi því við vitum það ekki. Ég get hins vegar sagt þér að þú ert ekki fyrsta konan sem drekkur áfengi án þess að vita að hún sé barnshafandi. Mörg líffæri og líkamshlutar eru að myndast á 3. til 8. viku en líklega hefur þú ekki verið komin svo langt þegar þetta átti sér stað.

Sumir trúa því að fóstrið sé verndað gegn svona utanaðkomandi áhrifum s.s. inntöku lyfja og áfengis á fyrstu tveim vikunum, akkúrat á þeim tíma sem konan veit ekki endilega að hún er ófrísk. Það hljómar auðvitað mjög gáfulega að náttúran hafi hugsað fyrir þessu eins og öðru en kannski var heldur aldrei gert ráð fyrir því að við værum að setja ofan í okkur áfengi og lyf.

Vona að allt gangi vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. júní 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.