Hnakkaþykktarmæling

06.03.2015

Sæl, Er komin 12+4. Fórum í 12 vikna sónar. Vorum búin að taka ákvörðun um að fara ekki í hnakkaþykktarm., en ég bað samt ljósm. að segja ef hún sæi eitthvað sem liti óeðlilega út. Hún sagði að allt það sem hún gæti skoðað líti bara vel út, en nú sé ég eftir því að hafa ekki farið í hnakkaþykktarm. Ástæðan er að ég var að skoða myndirnar sem við fengum, og allt í einu fór ég að hafa áhyggjur að allt líti ekki alveg eðlilega út (fór á sjálfsögðu að googla myndir, sem ég veit er ekki mjög sniðugt, en erfitt að gera það ekki þegar stressið kemur yfir mann). Mér finnst ég sjá  þessa aukna hnakkaþykkt sem er verið að tala um. Nú er ég engin expert í þessu, en fæ í magann af því að horfa á myndirnar okkar, sem er mjög óþægilegt og mig langar ekki að láta þetta trufla mig næstu 6m. Mér líður kjánalega að allt í einu vilja vita, og ástæðan fyrir því að ég er komin með bakþanka er auðvitað að mig langar í staðfestingu á að allt sé i lagi, og ég er að velta fyrir mér hvort ég geti "treyst" mati ljósm. að allt sé í lagi. Ef hún væri búin að sjá það sem mér finnst ég vera að sjá, hefði hún þá sagt eitthvað? Mig langar eiginlega bara að biðja um ráð hvað væri best að gera til þess að róa mig og hætta að hugsa um þetta. Er hægt að skipta um skoðun og biðja um að fá að koma aftur í hnakkaþykktarmælingu? Er það kannski ekki réttlætanlegt þar sem áhyggjur mínar byggja einungis á eitthvað sem mér finnst ég sjá? Hvernig get ég komið þessum áhyggjum til skila án þess að það hljómi asnalega? Petra


Sæl Petra, það þarf margra ára þjálfun til að lesa vel úr sónarmyndum og ég ráðlegg þér eindregið að reyna ekki að gúggla það, það gerir þig bara stressaða. Ljósmóðirin þín í sónarnum hefði ekki þagað ef hún hefði séð eitthvað óeðlilegt  þó að þú hafir afþakkað hnakkaþykktarmælingu. Þú ert ekki orðin of sein að biðja um hnakkaþykktarmælingu ef að þú vilt það, það er ekkert asnalegt. Gangi þér vel.