Hnakkaþykktarmæling og blóðprufa - bý erlendis

26.02.2008

Ég er nýlega þunguð og stödd erlendis. Hér er ekki boðið upp á hnakkaþykktarmælingu eða blóðprufurnar sem fylgja til líkindareiknings á litningagöllunum. Mig vantar töluvert af upplýsingum varðandi þessar rannsóknir til þess að hafa upp á læknastofu sem framkvæmir þær.

  1. Hver eru klínísku heitin á rannsóknunum?  Latína væntanlega...eða hvað?
  2. Hvað er mælt í blóðprufunum?
  3. Hafa fyrri blóðprufur eitthvað að segja varðandi líkingareikningana (þetta er ekki mitt fyrsta barn)? Læknirinn minn hér er strangtrúaður og heldur því fram að ef líkindareikningurinn hafi verið fínn á síðasta barni fyrir 2 árum, sé hann sjálfkrafa fínn núna. Er ekki sér blóðprufa á hverri meðgöngu?  (Hef hann grunaðan um að reyna að komast hjá þessari rannsókn af trúarástæðum.)
  4. Ef downs heilkenni er í fjölskyldunni, 3ja ættlið, eru þá ekki auknar líkur á þessum litningagalla hjá mér?  Er það reiknað inn í jöfnuna?


Sæl!

Þessi fósturskimun kallast á ensku nuchal scan eða down screening at 11-14 weeks, nuchal scan með blóðprufu kallast combined risk calculation. Þú getur fengið upplýsingar um þessa skimun inn á vefsíðunni www.fetalmedicine.com.

Það er þitt val að fara í svona skimun og er hún í boði fyrir allar konur hér sem það kjósa og eins er í Englandi. Ekki láta kaþólskan lækni stoppa þig af ef þetta er það sem þú vilt fá gert.

Gangi þér vel.

Kveðja,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri á Fósturgreiningardeild LSH,
26. febrúar 2008.