Hnetusteik um jólin

17.12.2007

Ég er komin 2 mánuði á leið. Má ég borða hnetusteik um jólin?


Sæl og blessuð!

Hnetusteik inniheldur ýmis konar grænmeti, olíur, mjöl, krydd og að sjálfsögðu ýmis konar hnetur. Sósa sem oft er borðuð með inniheldur oft smjör, rjóma, sveppi, krydd o.fl., sjá t.d. uppskrift úr Gestgjafanum.

Barnshafandi konum hér á landi hefur almennt ekki verið ráðlagt að sleppa neinu af því sem hnetusteikin inniheldur en það er þó rétt að taka það fram að í Bretlandi er ákveðnum hópi kvenna ráðlagt að borða ekki jarðhnetur á meðgöngu og meðan þær hafa barn á brjósti. Þessum hópi tilheyra konur sem eru sjálfar með ofnæmi, astma eða exem, barnsfaðir er með ofnæmi, astma eða exem eða eldri börn foreldranna eru með ofnæmi, astma eða exem. Þetta er ráðlagt vegna þess að sumir telja að örsmá prótein jarðhnetunnar geti komist yfir fylgjuna og þannig aukið líkur á ofnæmi hjá barninu síðar meir. Annars konar hnetur eru taldar öruggar, þar með taldar brasilíuhnetur, heslihnetur, valhnetur og kasjúhnetur.

Hnetukveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
17. desember 2007.