Hnútur á naflastreng

28.11.2011

Góðan dag!

Ég var að komast að því að ég er ófrísk.Við hjónin vorum búin að ákveða að eignast ekki fleiri börn. Ég varð ófrísk á svipuðum tíma í fyrra og eftir 14 vikna meðgöngu uppgötvaði ég að fóstrið væri látið og hafði það gerst nokkrum dögum áður. Orsökin var hnútar eða hnútur á naflastrengnum og fóstrið fékk litla næringu, einnig var strengurinn óvenju langur eða rúmir 20 cm. Þegar læknirinn sagði okkur orsakir fósturlátsins sagði hún okkur einnig að líkurnar á að þetta myndi gerast á næstu meðgöngu væru örlítið hærri hjá okkur en hjá þeim sem hefðu ekki lent í þessu. Það var svona lokahnykkurinn á því að eignast ekki fleiri börn. En til þess að gera langa sögu stutta, þá er ég komin um það bil 5-6 vikur núna og er komin yfir sjokkið og tek þetta allt saman í sátt, en hef áhyggjur sökum síðustu meðgöngu. Er hægt að fylgjast náið með fóstrinu og strengnum eða sést þetta kannski ekki sónar?

Með fyrirfram þökk.Sælar!

Hnútar á naflastreng eru ekki óalgengir og sérstaklega ef naflastrengurinn er langur. Ofast eru þeir ekki mjög fastir og valda þá engum skaða, en ef hnútarnir eru þéttir getur það haft áhrif á blóðflæðið í strengnum sem getur valdið dauða hjá fóstrinu. Langur naflastrengur getur endurtekið sig í næstu meðgöngu hjá sömu konu, en langbest er að þú hafir samband við lækninn sem talaði við þig eftir fósturlátið og hann mun skipuleggja eftirlit fyrir þig í þessari meðgöngu.

Kær kveðja,

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir fósturgreiningardeild,
28. nóvember 2011.