Spurt og svarað

26. ágúst 2010

Höfuðstaða - Skorðað - Samdrættir

Sælar ljósmæður!

Ég er gengin 34 vikur með þriðja barn og fór í skoðun í síðustu viku ég bað ljósmóðurina að athuga hvort barnið væri búið að færa sig ofan í grindina því mér fannst það vera búið að færa sig þangað niður með tilheyrandi þrýstingi og óþægindum, hún staðfesti að svo væri en að höfuðið væri ekki fast. Er þá talað um höfuðstöðu eða að það sé búið að skorða sig? Hún skráði höfuðstaða á skýrsluna.

Ég er búin að vera með samdrætti síðan á viku 23 og þá var leghálsinn hjá mér mýktur. Ég hætti að vinna í viku 28 og á viku 29 var leghálsinn opinn fyrir fingur, á viku 30 var mér gefið Adalat við samdráttum. Það sem mig langar að vita er að nú er ég gengin 34 vikur og ljósmóðirin í meðgönguverndinni vildi að ég tæki því eins rólega og ég gæti þar til ég væri komin 34 vikur því það væri óhætt fyrir barnið að koma eftir þann tíma. Ég er búin að fara tvisvar upp á Landspítala í rit vegna samdrátta en á ég þá eitthvað að hafa samband við þangað aftur nema ég sé viss um að fæðing sé komin af stað? Yrði eitthvað gert við samdráttum úr þessu? Samdrættirnir sem ég er að tala um eru með verkjum (ég hef vaknað að nóttu til með verki), ég tek sjaldnast eftir verkjalausu samdráttunum.

Takk kærlega fyrir góðan vef :D


Sæl og blessuð!

Höfuðstaða þýðir að barnið er með höfuðið niður en segir ekkert til um það hvort það sé skorðað eða ekki. Ef barn er ekki í höfuðstöðu getur það verið í sitjandi stöðu, skálegu eða þverlegu. Ef ljósmóðirin hefur sagt að það væri ekki fast þýðir væntanlega að það sé ekki skorðað. Vanalega er skráð í mæðraskrána Hst. fyrir höfuðstöðu, sk. fyrir skorðað og ósk. fyrir óskorðað.

Ef þú ert komin 34 vikur þá verður fæðingin ekki stöðvuð ef hún fer af stað. Ef þú finnur fyrir reglulegum samdráttum með verkjum þá er rétt fyrir þig að hafa samband við ljósmæðurnar á fæðingardeildinni og fá ráðleggingar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. ágúst 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.