Spurt og svarað

07. mars 2013

Höfuðverkur á meðgöngu

Hæ hæ
Nú er ég komin 16 og hálfa viku. frá viku 10 byrjaði ég fá höfuðverki þráláta! fæ höfuðverk á hverjum deigi! þegar ég stend upp eða beygi mig fæ ég svakalegan hjartslátt í höfuðið og svimar. Er orðin virkilega þreytt að vera með stanslausan seyðing og hausverk. Blóðþrýstingurinn er í góðu lagi,blóðmagnið er í góðu lagi,er að taka vítamín, er að drekka nóg vatn. Hvað annað get ég gert?
Sæl og takk fyrir að leita til okkar.
Nokkrum fyrirspurnum um höfuðverk á meðgöngu hefur verið svarað í "Spurt og svarað"
hér á vefnum og hvet ég þig til að kíkja á þær. Þú virðist nú vera með megin ástæður höfuðverkjar á fyrsta og öðrum þriðjungi á hreinu. Mér dettur þrennt í hug sem gæti verið að valda höfuðverknum, þreyta, vöðvabólga eða mígreni. Þegar við verðum barnshafandi breytum við stundum ósjálfrátt um svefnstellingar og líkamsstöðu almennt, hvort sem er þegar við stöndum eða sitjum. Þessi breytta líkamsstaða getur fljótt valdið vöðvabólgu og þar með skertu blóðfæði til höfuðs og þar með höfuðverk. Einnig er nokkuð um að mígreni byrji á meðgöngu. Ég mæli með að þú pantir þér tíma hjá heimilislækni til að athuga þetta, þú gætir líka farið í nudd eða lagt heita bakstra á axlir og ofanvert bakið. Einnig er sund góður meðferðarkostur við vöðvabólgu. Að öllu jöfnu er ekki mælt með notkun bólgueyðandi lyfja á meðgöngu við vöðvabólgu en þér er óhætt að taka Paratabs eða Parasetamol 2stk í einu allt að 2-3 sinnum á dag ef þú ert mjög slæm. Einnig er mikilvægt að þú passir að þú fáir næga hvíld, ef þú nærð ekki að hvílast nóg að nóttu gæti e.t.v. gott fyrir þig að ná þér í smá lúr í eftirmiðdaginn.
Vona að þetta hjálpi þér, gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. mars 2013.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.