Spurt og svarað

14. janúar 2015

Höfuðverkur og ljósfælni

Sælar og takk fyrir þennan frábæra vef! Ég er komin 9 vikur með mitt 3 barn og hef verið með ógleði og velgju nær allan tímann. Nokkuð svipað og undanfarnar tvær meðgöngur. En eitt er öðruvísi og það er að ég er oft með svona seyðing í höfðinu, ekki beint höfuðverk samt og svo ljósfælni (fyrir skæru ljósi), á td stundum erfitt með að vinna við tölvuskjá og horfa á sjónvarpið. Eins finnst mér mjög óþægilegt að hafa blikkandi ljós fyrir augunum og ég verð hreinlega að loka augunum þegar það gerist. Höfuðverkurinn er ekki skerandi, og ég hef ekki tekið neina verkjatöflu vegna hans - en ég held að ég myndi hafa gert það ef ég væri ekki ólétt, er held ég bara eitthvað smeik að vera taka inn lyf á þessum tíma meðgöngunnar. Vil taka það fram að ég fæ næstum aldrei nokkurn tíma höfuðverk og þessi lýsir sér eins og hann sé inní heilanum, get ekki lýst staðsetningu. Kannski svona fram í ennið. Þetta hefur verið að ágerast og nú er þetta eiginlega farið aðeins að trufla mig í daglegu lífi. Er þetta eðlilegt?
Kær kveðja, Ungfrú ljósfælin


Heil og sæl ungfrú ljósfælin, höfuðverkur á meðgöngu er nokkuð algengur sérstaklega í byrjun. Eins og þú lýsir þessu minnir þetta svolítið á mígreni sem að stundum byrjar á meðgöngu. En þar sem að þú kannast ekki við þessa líðan og til að gæta fyllsta öryggis ráðlegg ég þér eindregið að fara til  læknis í skoðun.  Þá vonandi færðu skýringu og vonandi einhver ráð til að bæta þína líðan.
 
Gangi þér vel og bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
14.01.2015
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.