Hormónastarfsemi og kyn barns

22.09.2006

Ég las um rannsóknir sem sögðu það að þegar kona gengur með stelpu, þá framleiðist meiri hormón heldur en þegar kona gengur með strák.

Svo las ég það líka að ógleði stafar af hormónamynduninni. Getur þá
ekki líka staðist að meiri ógleði á meðgöngu gefi til kynna að gengið er með stelpu?

Kveðja, Svanlaug.Kæra Svanlaug! Takk fyrir að leita á ljósmóðir.is.

Því miður fann ég ekki þessar rannsóknir sem þú vitnar til, um tengsl hormónastarfsemi og kyns, þrátt fyrir ítrekaða leit á netinu. Ég rakst hins vegar á nokkrar athyglisverðar síður um t.d. hormónaframleiðslu móður við sjálfan getnaðinn sem gæti haft áhrif á kyn barnsins, þ.e. ef aukið testosterone magn sé í blóði móður á þeim tíma sé líklegra að konan gangi með strák. Einnig voru ýmsar kenningar og próf sem hægt er að taka á netinu, sem eiga að hjálpa til við að nálgast sannleikann um það hvort kona gengur með stelpu eða strák.

Mér finnst þín kenning hljóma ágætlega og gæti vel komið til greina sem ein leið til að nálgast þennan sannleika, en möguleikinn á því að hafa rétt fyrir sér skeikar jú aldrei meira en 50%!. Annars tók ég á móti barni ekki alls fyrir löngu, þar sem móðirin átti ættir að rekja til Kenýa. Á þeim slóðum er því trúað að ef móðirin er glysgjarnari og hefur ríkari tilhneigingu til alls kyns punts á meðgöngunni, miðað við það sem gengur og gerist almennt hjá viðkomandi konu, þá bendi allt til þess að konan beri stúlkubarn. Sú var einmitt raunin í tilfelli þessarar konu og hún fæddi líka þessa ægilega fínu stelpu. Okkur báðum þótti kenningin líkleg af þeim sökum og einhvern veginn kann ég vel við þessa kenningu!

Mér þykir leitt að þú verður líklega ekki miklu nær um svar við spurningunni þinni, en ef ég rekst á eitthvað um þessa kenningu síðar skal ég láta þig vita. Gangi þér vel.

Kærar kveðjur,

Steinunn H. Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. september 2006.