Spurt og svarað

05. janúar 2009

Hrár fiskur og hrátt kjöt. Nýjar rannsóknir?

Hæ!

Mér var bent á af óléttri vinkonu minni í Svíþjóð að nýjar rannsóknir sýna að hráan fisk sé í lagi að borða á meðgöngu svo framarlega sem hann sé ferskur, og sömuleiðis ýmislegt annað í tengslum við þetta sem kom mér á óvart. Ég fór á stúfana og „googlaði“ þetta aðeins og fann þetta hérna: http://www.slv.se/templates/SLV_Page.aspx?id=12551&epslanguage=SV,http://wwwslv.se/templates/SLV_Page.aspx?id=10435&epslanguage=SV og þetta http://www.slv.se/templates/SLV_Page.aspx?id=21662&epslanguage=SV 

Þetta eru s.s. ráðleggingar sem matvælastofnun Svíþjóðar gefur fyrir óléttar konur. Þessar ráðleggingar staðfesta það sem vinkona mín sagði mér. Er eitthvað til í þessu? Er óhætt að fara eftir þessum ráðleggingum sem þeir gefa?

Kveðja, Unnur.


Sæl Unnur!

Vil leituðum til Matvælastofnunar og Zulema Sullca Porta, Dipl. oec. troph. á matvælaöryggis- og neytendamálasviði sendi okkur eftirfarandi svar:

„Listería er eins og margar bakteríur með mikla útbreiðslu og fyrirfinnst svo til allstaðar. Þess vegna er varla hægt að fullyrða að ferskur fiskur sé fullkomlega laus við Listeríu. Það er almennt mjög erfitt að koma í veg fyrir Listeríu-mengun í unnum matvælum.  Fiskur getur t.d. mengast við frumvinnslu, t.d. flökun. Enn meiri hætta er á því að bakterían fjölgi sér  því lengur sem matvæli eru geymd. Þetta þýðir að það er meiri hætta á sýkingu í eldra hráefni (t.d fiski) en fersku.

Hérna má finna ítarlegri upplýsingar um listeríu:
http://www.mast.is/flytileidir/fraedsla/matarsjukdomar/listeriamonocytogenes

Það þarf auðvitað að skoða í hvaða magni listería getur verið hættulegt fyrir heilsu manna.  Í sambandi við þetta hefur ESB lagt fram sérstaka reglugerð nr. 2073 (on microbiological criteria for foodstuffs). Þar kemur fram að listería í tilbúnum réttum má ekki fara yfir en 100 cfu/g. Flest áhættumöt hafa sýnt fram að það er meiri hætta á listeriosis þegar listería fer yfir 100 cfu/g í tilbúnum matvæli.

Staðreyndin er að í ferskum fiski er almennt mjög lítið af þessum bakteríum, þ.e.a.s. langt undir því magni sem gæti verið talin hættuleg fyrir heilsu manna.

Vandarmálið liggur eins og áður sagði í vinnslu hráefna. Þar getur bakterían fjölgað sér mikið ef starfsmaður t.d. fer ekki eftir ströngustu hreinslætisreglum í meðhöndlun matvælanna. Þess vegna er mikilvægt að fyrirtæki séu með mjög virkt innra eftirlitskerfi.

Annað vandarmál er að bakterían getur líka fjölgað sér í lofttæmi, þannig að vara í lofttæmdum umbúðum er ekki endilega varin fyrir listeríu. Þess vegna er ráðlagt í Svíþjóð að skoða vel pökkunardaginn og velja skv. því, þ.e.a.s. ferskasta fiskinn.

Niðurstaðan er sú að í augnablikinu sé ekki hægt að ráðleggja ófrískum konum að borða hráan fisk hér á Íslandi. Við teljum því ekki ástæðu til að breyta ráðleggingum sem fram koma í bæklingnum Matur og meðganga

Vona að þetta svari spurningunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.