Hráskinka í lagi eða ekki?

28.02.2015

Sælar. Ég er komin 10 vikur og mig langar svo hrikalega mikið í hráskinku, ég borðaði hana öðru hverju á síðustu meðgöngu. Það er ekkert talað um hana í bæklingnum um mataræði á meðgöngu. Er mér óhætt að borða hana?

 

Heil og sæl, já það er rétt að það er ekki sérstaklega talað um hráskinku, en í breskum leiðbeiningum um mataræði á meðgöngu er talað um að óhætt sé að borða hana. Hráskinka er söltuð og þurrkuð en ekki soðin og er því eins og nafnið gefur til kynna hrá. Strangt tekið á ekki að borða hrátt og illa steikt kjöt á meðgöngu þar sem það er pínulítill möguleiki á því að fá matarsýkingu/eitrun þar sem það alvarlegasta fyrir barnið væri sýking sem kallast listeriosis. Þú sjálf mundir líkast til varla taka eftir sýkingunni. Ég vil ítreka það að hættan á þessu er mjög lítil. Það er í lagi að borða hráskinku ef hún hefur verið gegnhituð vel svo sem eins og ofan á pizzu. Vona að þetta skýri málið aðeins. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
28.feb.2015