Hraður hjartsláttur

16.07.2008

Sælar ljósmæður og takk fyrir góðan vef.

Mig langar til að spyrja ykkur um eðlilegan hjartslátt á meðgöngu. Er núna ófrísk af mínu þriðja barni komin 27 vikur og er alltaf (mjög oft)með svo hraðan hjartslátt. Er yfirleitt með púls yfir 90 slög á mínútu og fer hann alveg upp í 115-120 sl á mín. Þetta gerist meira að segja þegar ég er ekkert sérstakt að gera, bara að slappa af. Einnig svimar mig oft,veit að ég er ekki blóðlítil, búin að láta athuga það. Er þetta eðlilegt? Man ekki eftir svona á síðustu meðgöngum.

Með von um svar sem fyrst.

Kveðja, Guðrún.


Sæl Guðrún og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Eðlileg tíðni hjartsláttar í hvíld hjá konu sem er ekki barnshafandi er 60 - 90 slög á mínútu. Tíðni hjartsláttar eykst á meðgöngu vegna aukningu á vökvarúmmáli í æðum. Á meðgöngu þarf líkami móðurinnar að sjá til þess að flytja aukið magn súrefnis til vefjanna til þess að fóstur geti þroskast eðlilega. Hjartað þarf að auka hraða sinn til þess að ráða við þetta aukna vökvarúmmál og finna konur oft fyrir þessari breytingu eins og þú lýsir. Tíðni hjartsláttar í hvíld eykst að jafnaði um 15-20 slög á mínútu á fyrstu tveimur þriðjungum meðgöngunnar og getur aukist enn frekar á þriðja þriðjungi meðgöngunnar. Konur sem hafa gengið með barn áður og þær sem ganga með fleira en eitt barn finna meira fyrir þessari aukningu. Í fræðunum er þess einnig getið að konur finni frekar fyrir þessu ef þær hafi ekki stundað reglulega líkamsrækt fyrir meðgönguna. Það er ekki óeðlilegt að þú finnir fyrir þessari aukningu á hjartslætti með svimatilfinningu.

Gangi þér vel.

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. júlí 2008.