Agel á meðgöngu

14.04.2010

Er í lagi fyrir ófrískar konur að taka inn Agel. Ég er þá sérstaklega að velta fyrir mér FLX vörunni.


Sæl!

Á vefsíðu Agel kemur fram að það eru efni í Agel EXO sem hafa verið flokkuð sem óæskileg á meðgöngu og því er barnshafandi konum ekki ráðlagt að nota EXO á meðgöngu. Á vefsíðunni WhyAgel er varað við notkun Agel FLX vegna þess að það hafa ekki verið gerðar neinar rannsóknir á mörgum innihaldsefnunum m.t.t. áhrifa þeirra á meðgöngu. Agel FLX inniheldur líka Chondroitin sem líkist efnafræðilega blóðþynningarlyfinu heparín.

Það eru ekki alltaf svona aðgengilegar upplýsingar um náttúruafurðir og heilsuvörur sem eru á markaði en margir telja að afurðir sem teljast hreinar náttúruafurðir séu með öllu skaðlausar en það er víst langt frá því. Vissulega geta margar svokallaðar heilsuvörur haft góð áhrif á ákveðin vandamál en á sama tíma getur þessi sama afurð haft slæm áhrif á aðra starfsemi í líkamanum eða komið ójafnvægi á líkamsstarfsemina. Hér er gott dæmi um vöru sem ef til vill getur linað liðverki og gigt en ef til vill komið ójafnvægi á blóðstorkukerfið. Það er með náttúrulyf eins og önnur lyf að það þarf að vega og meta ávinning af því að taka inn lyfið til móts við þá áhættu sem það getur falið í sér.

Ef þú ert með einkenni sem þarfnast lyfjameðferðar, hvort sem það eru hefðbundin lyf eða náttúrulyf þá er best að ráðfæra sig við lækni.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. apríl 2010.