Hreyfing og þunglyndi!!

11.01.2015

Sælar, Ég er nýlega búin að komast að því að ég er ólétt, líklega komin um 5 vikur og þetta er mitt fyrsta sinn. Síðast liðin ár hef ég tekið Esopram vegna þunglyndiseinkenna og kvíða. Getið þið sagt mér hvort það sé skaðlegt fyrir fóstrið? Ætti ég að hætta á lyfinu eða skipta um lyf? Helst vil ég ekki taka nein slík lyf, hvað þá á meðgöngu! Tek fram að ég hef enga sögu um sjálfskaða eða sjálfsvígshugsanir. Ég veit að hreyfing hefur jákvæð áhrif á þunglyndiseinkenni og að t.d. hlaup þar sem ákveðnum púls er viðhaldið geta beinlínis minnkað þunglyndi verulega. Er óhætt fyrir mig að stunda slíkt á meðgöngu? (sérstaklega ef ég hef ekki gert það áður) Ég æfði íþróttir áður en síðustu ár hef ég ekki hreyft mig nema í styttri tímabil í einu / öðru hvoru. Með fyrirfram þökk fyrir svar!

 

Heil og sæl og til hamingju!! Það er alltaf gott að ræða við þann lækni sem hefur sett þig á þessa meðferð og endurskoða málið með tilliti til þungunarinnar. Ég ráðlegg þér því að ráðfæra þig við lækni ef þú nærð ekki í þann sem setti þig á meðferðina þá við heimilislækni. Varðandi hreyfingu þá er það vel þekkt að hún hefur góð áhrif á þunglyndi og reyndar alla aðra líkamsstarfssemi. Ég mundi því ráðleggja þér að fara að hreyfa þig, góðir og reglulegir göngutúrar eru fínir  en þú getur í raun valið þá hreyfingu sem hentar þér best og þér finnst skemmtileg. Mestu skiptir að hreyfingin sé regluleg. Hafðu það gott og njóttu meðgöngunnar!!.

Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
11. jan. 2015