Hreyfingar

15.11.2010

Halló og takk fyrir frábæra síðu!

Ég er með mitt fyrsta barn og komin rúmar 37 vikur, er búin að finna hreyfingar bara vinstra megin núna í  þrjár - fjórar vikur og sagði ljósan mér að barnið sneri með rassinn og bakið út í hægri hliðina og væri svo stórt að það gæti ekki hreyft sig neitt mikið og sparkaði því bara út í aðra hliðina og mundi líklegast snúa svona fram að fæðingu. Svo í fyrrakvöld þá tók það pínu byltu og núna finn ég hreyfingar báðu megin og upp undir þindina eins og barnið hafi allt í einu miklu meira pláss? Plús að eftir byltuna hjá barninu er ég byrjuð að þurfa að pissa helmingi oftar og fengið nokkrum sinnum síðan í gær stingi í pissublöðruna eða þvagrásina, veit ekki hvort er, og þá þarf ég að pissa. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af?  Get ég verið að fá blöðrubólgu eða getur barnið minnkað, eða legið stækkað innaní án þess að bumban stækki með?

Bestu kveðjur, nóvembermamman


Komdu sæl.

Sennilega hefur barnið breytt eitthvað um stellingu og því finnur þú þessar breytingar á hreyfingunum.  Börn eru ekki svo fastskorðuð eða plássið það lítið að þau geti ekkert hreyft sig.  Það gera þau alveg þar til þau koma út.  

Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af heldur er bara eðlilegt.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
15. nóvember 2010.