Hreyfingar barns í móðurkviði

16.10.2007

Sælar!

Ég hef milkar áhyggjur af hreyfingum barnsins míns. Þannig er að ég er komin 29 vikur á leið og finnst hreyfingar fara minnkandi. Það hafa aldrei verið rosalega miklar hreyfingar eins og ég heyri margar tala um, að allt sé á fullu í bumbunni. En ég hef alveg verið að finna kröftugt spark hér og þar og mest bara kippi. En svo líður oft svo langur tími á milli hreyfinga,stundum engar eða litlar hreyfingar í 1-2 daga. Svo núna síðustu 2-3 daga hef ég litla sem enga kippi fundið en finn samt fyrir barninu að það er að hreyfa sig mjög hægt og rólega og oftar en ekki fnn ég útstæðar bungur á kúlunni, s.s. barnið, og heldur sér þannig í einhvern tíma. Ég vil taka það fram að fylgjan er á góðum stað svo þetta ætti ekkert að hafa með það að gera. Ég verð bara áhyggjufyllri með hverjum deginum því maður heyrir að það sé verra að finna lítið af hreyfingum. Veit ekki hvað þetta getur verið.

Með von um svar sem fyrst

kv. ein örvæntingafull


 Komdu sæl

Það er eins og með allt varðandi meðgöngu og fæðingu það er ekkert eins hjá tveimur konum né tvær meðgöngur eins hjá sömu konunni.  Þú getur ekki endilega borið þig saman við næstu konu og hvað hún finnur.  Þú ættir samt að finna hreyfingar á hverjum degi.  Þú finnur líklega minna á daginn þegar þú ert að gera alla hluti en ættir þá að finna meira á kvöldin þegar þú ert í hvíld.  Eftir því sem líður á meðgönguna og plássið minnkar fyrir barnið breytast hreyfingarnar og verða hægari eins og þú talar um og meira hnoð en minni kippir og spörk.  Ef þú hefur áhyggjur af hreyfingunum ættir þú að leggjast niður og hugsa um þær og telja.  Hreyfingarnar ættu að vera að minnsta kosti 10 á tveimur tímum.  Ef þú finnur ekki hreyfingar eða þær eru eitthvað færri en 10 á tveimur tímum ættir þú að hafa samband við ljósmóðurina þína sem hringir fyrir þig upp á meðgöngudeild og þú færð að koma í monitor til að kanna hvort ekki er allt í lagi með barnið.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
16. október 2007.