Hreyfingar eftir vendingu

18.02.2011

Sælar og takk kærlega fyrir frábæran vef!

Veit hreinlega ekki hvernig svo spurningarglöð kona eins og ég hefði komist í gegnum meðgönguna án ykkar ;-) Mig langar að spyrja aðeins út í áhrif vendingar á fóstur. Ég fór í vendingu sem gekk mjög vel og var í mónitor í rúman klukkutíma þar á eftir, sem sýndi að allt leit vel út. Eftir að ég kom heim fann ég litlar hreyfingar en þó alltaf aðeins inni á milli. Veit að barnið liggur núna öðruvísi, svo mér fannst eðlilegt að ég fyndi ekki samskonar hreyfingar. Getur barnið verið eftir sig, þ.e. eitthvað dasað eftir vendinguna eða lyfið sem mér var gefið? Eða hafa þau mismunandi hreyfiþörf? Getur staða legsins hafa breyst á þann hátt að núna að ég finni minni hreyfingar?

Kveðja, Erla.


Sæl Erla!

Það er getur vel verið að þú finnir minni hreyfingar og örðuvísi hreyfingar af því að barnið snýr öðruvísi núna. Barnið ætti ekki að vera dasað, hvorki eftir lyfin né vendinguna. Best er að meta hreyfingarnar með því að velja þann tíma dags, sem barnið hreyfir sig venjulega mikið á eins og t.d. þegar þú slappar af, á kvöldin eftir kvöldmat eða þegar þú ert að fara að sofa. Taktu tímann á því hvað það tekur barnið langa stund að hreyfa sig tíu sinnum en þá er átt við allar hreyfingar barnsins nema hiksta. Talið er eðlilegt, að ófætt barn hreyfi sig tíu sinnum á innan við tveimur tímum.

Ef þú hefur áhyggjur af hreyfinginum þá er best að hafa samband við ljósmæður þar sem vendingin var gerð og fá að koma í rit.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. febrúar 2011.