Spurt og svarað

12. ágúst 2010

Hreyfingar og lengd meðgöngu

Hæhæ og takk fyrir góða síðu.

Ég er búin að senda nokkrar fyrirspurnir en
aldrei koma svör við neinu, er ég að leita á vitlausum stað, á þetta ekki bara að koma í "nýjustu fyrirspurnir"?  En ég ætla allavega að reyna einu sinni enn og vona að ég fái svör.  Er komin 38 vikur og er ennþá með svakalegar hreyfingar, barnið var ekki búið að skorða sig í síðustu skoðun og mér finnst það ekki enn vera búið að því (ekki það að ég hafi hugmynd um hvernig eigi að finna það en mér finnst hann alltaf út um allt).  Er
þetta merki um að ég gangi fram yfir eða að barnið sé mjög lítið eða stórt eða hvað?  Er búin að heyra að hreyfingar minnki þegar líður á meðgönguna
en það hefur sko ekki gerst hjá mér.  Svo var ég líka að spá út frá hverju þið teljið vikurnar, samkvæmt lækninum mínum og ljósmóður er ég komin 38 vikur en ég byrjaði síðast á túr 8. nóv. 09, og á síðasta sunnudag voru 39 vikur síðan það var, veit það munar ekki miklu en hvoru á ég að taka mark á?  Margir hafa sagt við mig að þetta hljóti að vera vitlaust talið hjá þeim þar sem bumban er orðin risastór! 

Enn og aftur takk fyrir frábæra síðu
og ég vona að ég fái svör við þessum spurningum.

Kv. Ingibjörg
Sæl Ingibjörg.

Við getum því miður ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast.   En oft er hægt að finna svör við svipuðum spurningum í flokkunum undir "Nýjustu fyrirspurnir"
Góðar hreyfingar eru merki um að barninu þínu líði vel og ekkert annað en það.  Það að þú finnir miklar hreyfingar er gott, kannski ertu svona næm á þær eða kannski snýr barnið þitt þannig að auðvelt er að finna þær.  Þetta hefur ekkert að gera með það hvenær barnið fæðist eða hversu stórt það er.  Konur sem ganga með annað barn (eða þriðja...) mega eiga von á því að það skorði sig ekki fyrr en við fæðingu þar sem plássið er meira en á fyrstu meðgöngu.
Vikurnar eru taldar í byrjum útfrá fyrsta degi síðustu blæðinga en eftir 20 vikna sónarinn er farið eftir þeirri dagsetningu sem hann setur og það er ekki alltaf samræmi á milli þessara tveggja dagsetninga.

Vona að þetta svari spurningunum.


Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
12. ágúst 2010.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.