Spurt og svarað

26. júní 2007

Hreyfingar og sitjandi staða

Ég er komin 33 vikur á leið og mig langaði að spyrja ykkur aðeins útí hreyfingarnar hjá barninu. Ljósmóðirin mín sagði að hreyfingarnar og spörkin ættu nú að vera orðnar staðbundnari. Mér finnst ég finna hreyfingar útum allt gjörsamlega og þær eru orðnar svo kröftugar og klunnalegar að það hristist alveg allur maginn á mér. Getur það talist eðlilegt? Svo er líka annað, krílið er búið að sitja síðan á 25 viku og situr enn. Eru miklar líkur á að það eigi ekki eftir að snúa sér? Ég er soddan nýgræðingur í þessu öllu saman og þetta eru kannski kjánalegar spurningar en ég vona að þið getið svarað einhverju af þessu 

Takk :-)

 


 


Sæl og takk fyrir fyrirspurnina!

Hreyfingar geta nú verið mjög mismunandi og einnig verið út um allt þó svo að sumir vilja meina að þær eigi að vera staðbundnari við ákveðinn vikufjölda, þar hef ég nú bara mína reynslu úr starfi. Ég tel þetta bara vera merki til góðs að barnið sé við góða heilsu. Það geta verið meiri líkur á að barnið sitji áfram fyrst það er búið að sitja allan þennan tíma en stundum gerast kraftaverk og þau taka kollsteypu og fara í rétta stöðu, en það er oft reynt að snúa börnunum, svokölluð vending er gerð við 36-37 vikur ef barn hefur ekki snúið sér og er það töluvert algengt og er alltaf að gerast.  Ef barn situr ennþá við þennan vikufjölda og ekki tekst að snúa barninu þá er konum boðið að fæða sitjanda eða ef ekki þá er ákveðinn keisaraskurður það er misjafnt hvað konur vilja.

Gangi þér vel.

Með kærri kveðju og von um að þetta hafi svarað þinni fyrirspurn,

Sigrún E. Valdimarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. júní 2007.

p.s. alls ekki hugsa að þetta sé kjánalega spurt við vitum ekki allt, betra er að spyrja oftar en sjaldnar.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.