Spurt og svarað

13. maí 2008

Hvað telst ?rétt?, ef sónar og blæðingadegi ber ekki saman?

Sæl!

Ég er rétt að verða fertug og á von á mínu 5. barni - er nú komin 29 vikur að því er ég vil meina. Sónarskoðun vill hins vegar seinka mér um 8 daga. Ég er ekki ánægð með það. Tel mig vita betur! Ég er ein af þessum „konum með sögu“ og er því mjög ósátt við að ganga lengur með en 40 vikur. Ég gekk í 42 vikur með 1. barnið. Hann fæddist rúmar 17 merkur - ég rifnaði nokkuð mikið og missti um 800 ml. af blóði en annars gekk allt vel. Enginn veit fyrir víst hvað ég gekk lengi með annað barnið, þar sem mjög stutt er á milli þessara tveggja en það var örugglega um 42 vikur ef ekki meira. Þá fæddist rúmlega 19 marka stelpa. Hún sat föst á öxlum, ég var klippt og rifnaði illa en að öðru leiti fór allt vel. Þriðja barnið fæddist andvana eftir rétt tæpar 42 vikur. Það var 20 marka stúlkubarn. Dánarorsök sögð vera sú að okkur hefði blætt saman í fylgju og súrefnisupptakan því öll farið yfir til mín en ekki hennar. Þessu fylgdi engir verkir, blæðingar eða annað - bara gerðist! Í þessari fæðingu rifnaði ég enn einu sinni nokkuð mikið. Fjórða barnið var svo 15 marka strákur sem kom í heiminn eftir rétt tæplega 39 vikna meðgöngu. Ég krafðist þess að fá gangsetningu og þurfti ekki annað en hormónastíla og allt gekk eins og í sögu. Fæðingin gekk mjög vel, engar klippingar eða rifnun -  og þvílíkur munur að fara heim af fæðingardeildinni, heill að þessu leiti. Mér finnst ég hafa margar góðar ástæður til þess að vilja ekki lengja meðgöngutímann, en mér sárnar svo að sónardagsetningin er tekin fram yfir hina dagsetninguna. Það er enn ekkert farið að ræða um hvort ég verði látin ganga með fulla meðgöngu eða ekki. Hef ég einhvern rétt á að setja fram kröfur um það? Með von um svar.

Kær kveðja, Verðandi júlímamma.


Sæl!

Þegar þessi sónardagur er reiknaður út eru gerðar mælingar með sónartækinu og út frá því reiknaður áætlaður fæðingadagur. Þetta er það sem er svo miðað við í mæðravernd sem áætlaður fæðingadagur. Eðlilegur meðgöngutími er samt sem áður 37-42 vikur og þessi sónardagur er miðaður við 40 vikur sem er þar mitt á milli. Þetta er alls ekki heilög dagsetning en auðvitað er t.d miðað við dagsetninguna m.t.t gangsetningar vegna meðgöngulengdar o.s.frv. Þú hefur heilmikla sögu á bak við þig sé ég og mér finnst full ástæða að þú ræðir um væntanlega fæðingu við ljósmóður og lækni í mæðravernd. Þú skalt alls ekki taka því þannig að verið sé að rengja þinn útreikning því eins og ég segi eru þetta útreikningar samkvæmt stöðluðum mælingum. Endilega láttu í þér heyra í mæðravernd svo hægt sé að setja upp fæðingarplan fyrir þig.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.