Áhugaleysi á kynlífi

06.08.2008

 sælar og takk fyrir góðan vef

Þannig er að ég og unnusti minn höfum ekki stundað kynlíf síðan á 26. viku er núna komin 35 vikur, ég er búin að vera mjög viðkvæm á meðgöngunni og þarf lítið til að "allt"verið vonlaust, ég upplifi rosalega mikla höfnun, sem hefur augljóslega áhrif á sjálfstraustið, sem er ekki gott þessa dagana.  Mðgangan hefur gengið vel að öðru eiti og kynlífið var í góðu þangað til ca 20 viku þegar það fór að koma kúla.  Er eitthvað sem ég get gert til að mér líði betur?  Er ekki alveg að meika þetta, finnst ég alveg ómöguleg, eina ástæðan sem hann gefur mér er að hann hefur bara ekki áhuga og segir að þetta sé svona hjá mörgum.  Velti oft fyrir mér hvort að þetta lagist eitthvað eftir fæðinguna, sé það bara ekki gerast því hann er það áhugalaus.  Ég reyni að virða hans tilfinnignar gagnvart kynlífinu, en er eðlilegt að ég bíði bara?  Ég hef líka tilfinningar!

ein vonlaus Komdu sæl

Þið þurfið augljóslega að tala saman um það hvernig ykkur líður og hvers vegna.  Hefur þú sagt honum frá höfnunartilfinningunni og minnkandi sjálfstrausti?  Það er alveg rétt hjá honum að sumir verðandi feður missa áhugann á kynlífi á meðgöngunni en svo lagast það eftir fæðingu.  Er kannski mögulegt að hann komi á einhvern hátt til móts við þig? 

Finnið ykkur góðan tíma og reynið að ræða málin í rólegheitum.  Hugsið svo aðeins málið og reynið að finna aðferðir sem virka fyrir ykkur bæði.  Kynlíf er jú svo miklu meira en samfarir.  Nálægð, snerting, vinátta og ást getur hjálpað þér að finna sjálfstraustið aftur en þú þarft líka að hugsa um sjálfa þig og efla sjálfstraustið þannig.

Ef ekkert dugar og þið náið ekki að leysa úr þessu sjálf getur verið gott að leita til ráðgjafa eftir hjálp.

Gangi ykkur vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. ágúst 2008.