Hver er einkenni meðgöngueitrunar?

24.10.2006

Hver eru einkennin sem móðir finnur fyrir í sófanum heima, ef hún er komin með meðgöngueitrun?Komdu sæl!

Meðgöngueitrun er það nefnt, þegar kona greinist með hækkaðan blóðþrýsting á meðgöngu auk þess að hafa eggjahvítu í þvagi og oft fylgir bjúgmyndun víðs vegar á líkamanum (t.d. á fótum, höndum og/eða í andliti). Konu með væga meðgöngueitrun þarf ekki að líða illa í upphafi, nema er e.t.v. er þreytt og/eða hefur óþægindi vegna bjúgmyndunar. Það ástand getur þó breyst á skömmum tíma og fari kona að finna fyrir höfuðverk, fá sjóntruflanir t.d. sjá flygsur fyrir augum eða finna fyrir verk undir bringspölum ættir hún tafarlaust að hafa samband við mæðraverndina sína því það geta verið merki um alvarlega meðgöngueitrun, sem þarf að greina og meðhöndla strax.

Vona að þetta svari fyrirspurninni þinni og vona að þér líði vel á meðgöngunni.

Kveðja 

Yfirfarið 28.10.2015