Hverjar eru líkur á fósturláti eftir 12 vikur?

20.01.2009

Hverjar eru líkur á fósturláti fyrir 12 vikur? Hverjar eru líkur á fósturláti eftir 12 vikur? Hverjar eru líkur á fósturláti eftir 20 vikur? Einhverjar kannanir eða prósentutölur til um þetta?


Það er talað um fósturlát þegar meðgangan endar að sjálfu sér, fyrir 20 vikna meðgöngu. Flest fósturlát verða vegna litningagalla en geta einnig tengst vandamálum móðir, t.d. vandamálum í legi, skort á progestroni eða vandamálum tengdum ónæmiskerfi. Reykingar, áfengisneysla og kókaínneysla auka einnig líkur á fósturlátum. Tíðni fósturláta hækkar með hækkandi aldri móður.

Það er mjög erfitt að segja til um tíðni fósturláta. Í einni bók stendur að tíðni fósturláta sé að minnsta kosti 15% af þeim þungunum sem vitað er um en mun fleiri fósturlát verða það snemma á meðgöngu þegar konur vita ekki enn af þungun eða hafa ekki tekið þungunarpróf til staðfestingar. Flest þessara fósturláta verða fyrir 12. viku þannig að líkurnar á fósturláti eftir 12. viku eru miklu minni en fyrir þann tíma.

Því miður hef ég ekki nákvæmara svar en þetta.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. janúar 2009.