Hvernig getur maður athugað sjálfur hvort barnið er skorðað?

20.11.2006

Hvernig getur maður athugað sjálfur hvort barnið er skorðað?

Kveðja, ein forvitin.


Sæl forvitin og takk fyrir að leita til okkar!

Erfitt er að athuga sjálfur hvort barnið er skorðað, þar sem það er gert með því að hreyfa kollinn rétt fyrir ofan lífbeinið. Stundum getur maður ekki hreyft kollinn og er hann því skorðaður og stundum er hann rétt hreyfanlegur og þá er hann lausskorðaður, í öðrum tilfellum er hann vel hreyfanlegur og jafnvel hægt að komast með hendi undir hann þá er hann óskorðaður. Yfirleitt til að fá nákvæma útkomu er þetta í höndum reyndra ljósmæðra. Einnig er mikilvægt að þreifa eftir stöðu barnsins, þ.e. hvort um höfuðstöðu eða sitjanda er að ræða.

Gangi þér sem allra best.

yfirfarið 29.10.2015