Hversu lengi geta ?byrjunareinkenni? varað?

20.01.2007

Halló!

Mér leikur mikil forvitni á að vita hvað sé eðlilegt að vera með „byrjunareinkenni“ lengi? Er komin 13. vikur á leið og allt hefur verið eðlilegt hjá mér að ég tel. Hef einu sinni fengið blöðrubólgu annað ekki. En þessi svo kölluðu byrjunareinkenni sem eru sögð vera eðlileg fyrstu 3 mánuðina eru enn til staðar. Þá á ég við: svima, ógleði, þreytu, útferð (sem hefur aukist), stingi í maga, hæðatregðu og „túrverki“. Ég veit að engin meðganga er eins en hvenær er það eðlilegt að byrjunareinkennin hætti og hverfi?

Ef kona er með „túrverki“ lengi eða svona u.þ.b. til 15 viku, er þá meiri hætta á fyrirburafæðingu? Hvar getur maður fengið upplýsingar um hvað sé eðlilegt og hvað ekki á meðgöngu?

Með von um skjót svör.

Kveðja, Ein áhyggjufull!Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Einkenni á fyrstu vikum meðgöngu vara oftast nær fyrstu 12 vikurnar. Sumar konur finna þó fyrir þessum einkennum lengur, eða allt þar til á fjórða mánuði. Það er ekki meiri hætta á fyrirburafæðingu þó konur finni fyrir „túrverkjum“ þar til á 15. viku meðgöngu. Líklegasta skýringin fyrir svona „túrverkjum“ er að legið er að stækka og liðböndin að gefa eftir. Þetta eru svokallaðir togverkir. Hins vegar ef það er blæðing samhliða svona verkjum þá ætti konan að hafa samband við lækni eða þá ljósmóður sem hún er hjá í mæðravernd. Ég ráðlegg þér að ræða við ljósmóðurina sem þú ert hjá í mæðravernd um það hvað sé „eðlilegt” og hvað ekki á meðgöngunni.

Vona að þetta svari spurningum þínum.  Gangi þér vel.

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. janúar 2007.