Spurt og svarað

26. ágúst 2008

Hversu seint á meðgöngu má fara í innanlandsflug?

Ég bý úti á landi og þarf að fljúga til Reykjavíkur til að eiga barnið mitt. Ég hringdi í Flugfélag Íslands til að athuga hvenær ég mætti í síðasta lagi fljúga og var sagt að þeir gætu farið fram á læknisvottorð um að maður sé frískur sem er ekki eldra en sólarhringsgamalt eftir 37 vikna meðgöngu. Nú á ég tvö börn fyrir og hef aldrei átt fyrir tímann og alltaf verið frísk á meðgöngunni og bendir til að svo verði einnig núna. Nú er ég að velta fyrir mér - er virkilega eitthvað sem getur gerst í svona stuttu flugi innanlands þegar maður er að fljúga svona seint á meðgöngu (flýg líklega milli viku 38 og 39) og hvað þyrfti að vera að til þess að maður mætti ekki fljúga.


Sæl og blessuð!

Reglur Flugfélags Íslands eru þannig að barnshafandi konur sem komnar eru 8 mánuði á leið eða lengra sem og þær sem fætt hafa barn fyrir tímann, geta einungis ferðast með þeim ef þær leggja fram læknisvottorð, gefið út innan 72 klukkustunda frá brottför, þar sem staðfest er að þeim stafi engin hætta af fluginu. Samkvæmt þeirra reglum mega barnshafandi konur undir engum kringumstæðum fljúga tvær síðustu vikur meðgöngunnar þannig að þú verður að fara í flugið áður en meðgöngulengdin er orðin 38 vikur og þá með læknisvottorð upp á vasann.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. ágúst 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.