Spurt og svarað

28. ágúst 2007

Áhugaleysi verðandi föður á kynlífi

Hæ og takk fyrir frábæran vef :)
Ég er á minni fyrstu meðgöngu, gengin 23 vikur. Það sem er að angra mig er hvað mér finnst verðandi faðir vera áhugalaus um kynlíf núna. Ég held það sé ekki að honum finnist ég ekki aðlaðandi heldur það að hann er hræddur um að skaða barnið eða honum finnst óþæginlegt að vita af því þarna.  Fyrstu 3 mánuðina hafði ég alls enga löngun til kynlífs en hans var alveg
eðlileg svo að mig minnir. Svo núna þá er eins og hann hafi engan áhuga fyrir því, og það er alveg sérstaklega leiðinlegt þar sem að löngunin mín er komin aftur. Svo er ég hrædd um að hann sé að horfa á aðrar konur og skoða hvað þær eru flottar í vexti og svona. Ég hef ekki fitnað mikið síðan ég varð ólétt, finnst bara brjóstin á mér vera ekkert sérlega æsandi með svona stórt "geirvörtu svæði", annars finnst mér ég vera voðalega sæt svona ólétt. Alls ekki hrædd um samt að hann færi að halda framhjá, ég veit bara ekki alveg hvað ég á að gera í sambandi við þetta. Maður hefur náttúrulega þarfir og ég gæti ekki sleppt því að stunda kynlíf það sem eftir er af meðgöngunni. Það hafa alveg verið skipti en þau eru svo fá að ég get talið þau.  Hvað get ég gert til þess að fá hann til að fá meiri áhuga fyrir kynlífi?


Komdu sæl. 

Verðandi feður missa stundum áhugann á kynlífi sérstaklega þegar kúlan stækkar og geta verið mismunandi ástæður fyrir því eins og ég hef talað um áður hér á vefnum.  Meðal annars geta ástæðurnar verið eins og þú nefnir að finnast óþægilegt að vita af barninu þarna og vera hræddur um að meiða barnið.  Það getur verið erfitt að sannfæra feður um að barnið finni ekkert til þó þið stundið kynlíf og það hefur engin slæm áhrif hvorki á þig né barnið að stunda kynlíf. 

Þú talar um að áhugi þinn á kynlífi hafi verið lítill í byrjun en hvað gerðuð þið þá?  Gátuð þið rætt saman og fundið einhvern flöt á kynlífinu sem bæði voru sátt við eða þurfti hann bara að bíta í það súra epli að kynlíf var bara ekkert í boði á þessum tíma?  Hann hefur örugglega haft sínar þarfir þá eins og þú hefur núna. 

Þó þér finnist þú ekkert æsandi svona ólétt er ekki þar með sagt að honum finnist það ekki svo þú skalt bara skrúfa upp sjálfstraustið því þannig ert þú líka meira spennandi - auðvitað ertu æsandi þó líkaminn hafi breyst!

Mínar ráðleggingar eru að tala saman og reyna að finna leiðir sem bæði eru sátt við.  Meðgangan er tími sem gengur yfir og kynlífið kemst örugglega aftur á blað, en það munu verða breytingar á kynlífi ykkar með stækkandi fjölskyldu þannig að það er gott að byrja strax að ræða saman væntingar ykkar og þrár svo ykkur takist að vinna saman úr hlutunum.

Gangi ykkur vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
28. ágúst 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.