Spurt og svarað

25. mars 2008

Imovane, Seroquel og Lamictal

Sæl!

Hef verið að taka Imovane, Seroquel og Lamictal út af þunglyndi og kvíða. Tek þau öll ákvöldin þar sem ég er með mikinn svefnkvíða. Losaði mig strax við Seroquelið. Má ég taka hin lyfin. Veit ekkert og er mjög smeyk við að taka þau, fæ ekki tíma hjá kvensjúkdómalækni fyrr en 1. apríl. Er allt í lagi þangað til að taka Lamictalið sem er 200 mg og Imovane. 

Kveðja, bumban.


Sæl og blessuð!

Þú ættir að ráðfæra þig strax við heimilislækni eða þann lækni sem ávísaði þessum lyfjum á þig. Það er mjög mikilvægt að læknir meti það hvort þessi lyf henti þér á meðgöngunni. Það þarf alltaf að meta hugsanlegan ávinning af töku lyfjanna til móts við þá áhættu sem þau hugsanlega hafa. Það getur verið að önnur lyf henti þér betur. Sum lyf eins og t.d. Lamictal geta lækkað styrk fólínsýru og því gæti verið gott fyrir þig að taka inn meira af fólínsýru en venjulega er mælt með. Læknir getur ávísað á þig 5 mg. töflum.

Hér fyrir neðan eru meiri upplýsingar um þessi lyf.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. mars 2008.

Í Sérlyfjaskránni á vef Lyfjastofnunnar er að finna eftirfarandi upplýsingar:

Imovane (Zopiclonum)
Ekki liggja fyrir nægileg gögn til að unnt sé að meta öryggi af notkun zópíklóns á meðgöngu og við brjóstagjöf.

Meðganga
Æxlunarrannsóknir hafa verið gerðar á þremur dýrategundum og komu engar vísbendingar fram um fósturskaða af völdum zópíklóns.

Ef zópíklón er hins vegar notað á síðustu þremur mánuðum meðgöngu eða við fæðingu má búast við áhrifum á nýbura eins og lækkuðum líkamshita, slekju (hypotonia) og öndunarbælingu vegna lyfhrifa lyfsins.

Þar sem ekki er alltaf hægt að yfirfæra æxlunarrannsóknir á dýrum á menn er ekki mælt með notkun zópíklóns á meðgöngu.

Ef zópíklóni er ávísað konu á barneignaraldri skal ráðleggja henni að hafa samband við lækni um að hætta notkun lyfsins ef hún ráðgerir að verða barnshafandi eða ef hana grunar að hún sé barnshafandi.

Seroquel
Enn hefur ekki verið sýnt fram á öryggi og verkun Seroquel á meðgöngu. Fram til þessa benda dýrarannsóknir ekki til skaðlegra áhrifa en hugsanleg áhrif á augu fóstursins hafa þó ekki verið könnuð. Því skal aðeins nota Seroquel á meðgöngu ef ávinningur þess réttlætir hugsanlega áhættu. Fráhvarfseinkenni sáust hjá nýburum mæðra sem notuðu Seroquel á meðgöngu.

Lamictal (lamótrigín)
Faraldsfræðilegar rannsóknir með u.þ.b. 2000 konum, sem fengu lamótrigín eitt sér á meðgöngu, útiloka ekki aukna hættu á fæðingargöllum. Ein þunganaskrá hefur tilkynnt um aukna tíðni andlitsskora (facial clefts – s.s. klofinn gómur/skarð í vör). Aðrir gagnagrunnar hafa ekki staðfest þessar niðurstöður. Dýrarannsóknir hafa sýnt eitrunaráhrif á fósturþroska.

Ef meðferð með lamótrigíni er talin nauðsynleg á meðgöngu er mælt með lægsta mögulega lækningaskammti.

Lamótrigín hefur væg hamlandi áhrif á tvíhýdrófólínsýru-redúktasa og gæti því fræðilega leitt til aukinnar hættu á fósturskaða með því að lækka styrk fólínsýru. Íhuga má inntöku fólínsýru þegar þungun er fyrirhuguð og snemma á meðgöngu.

Lífeðlisfræðilegar breytingar á meðgöngu geta haft áhrif á þéttni lamótrigíns og/eða verkun þess. Skráð eru tilvik þar sem styrkur lamótrigíns í blóðvökva hefur lækkað á meðgöngu. Tryggja skal viðeigandi klínískt eftirlit með konum sem taka lamótrigín á meðgöngu.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.