Jákvætt þungunarpróf. Hvað svo?

02.06.2008

Sæl, var að fá jákvætt þungunarpróf eftir 1½ árs „reynirí“ og er rosalega ánægð. Hvað geri ég næst? Ég á að fara í snemmsónar á 7. viku er það ekki? Bý í Hafnarfirði hvert fer ég í snemmsónar?

 


 

Sæl og blessuð og til hamingju!

Margar konur fara til kvensjúkdómalæknis í snemmsónar til að fá frekari staðfestingu en það er ekki nauðsynlegt. Ef þú kýst að fara í slíka skoðun þá er hægt að greina hvort um fleiri en eitt fóstur er að ræða og greina hjartslátt.

Nú stendur öllum konum til boða að fara í hnakkaþykktarmælingu við 11 - 14 vikna meðgöngu og í þeirri rannsókn er einnig hægt að greina ef um fleiri en eitt fóstur er að ræða.  Þú þarft að fá tilvísun hjá ljósmóður sem sinnir meðgönguvernd í hnakkaþykktarmælinguna og því er best að setja sig í samband við ljósmóður sem sinnir meðgönguvernd ef þú hefur hug á slíkri rannsókn en annars bara til að panta tíma í fyrstu skoðun. Mælt er með að fyrsta viðtal í mæðraverndinni fari fram við 8-10 vikna meðgöngu og gott er að panta tíma í þessa fyrstu skoðun með góðum fyrirvara.

Kíktu svo endilega á pistilinn okkar um næringu á meðgöngu og bæklinginn „Matur og meðganga“.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. júní 2008.