Áhyggjur á meðgöngu

30.09.2009

Góðan dag og gott að geta skrifað hingað.

Meðgangan hefur verið erfið en samt gengið ágætlega og nú kvíði ég bara fyrir fæðingunni sem er í nánd. Ég hef verið með mikinn ótta og áhyggjur af heilbrigði barnsins frá því ég var komin 4 vikur á leið. Allar mælingar hafa komið vel út en samt hef ég verið óróleg. Er hægt að finna það á sér að eitthvað sé ekki í lagi?Hvaða áhættuþættir valda því t.d. að barn sé þroskaheft? Er það eitthvað sem konan borðar á meðgöngu eða borðar ekki? Eru til rannsóknir um það? Hvenær kemur það í ljós að barn er ekki að þroskast eðlilega? tek það fram að ég er heilsusamleg, reyki ekki, drekk ekki, tek ekki lyf eða neitt sem ætti að hafa áhyggjur af. En samt hef ég áhyggjur. Er þetta meðgönguþunglyndi?  Ég á erfitt með sjálfa mig, kvíði svolítið fyrir því að fá barnið þar sem nú er svo stutt í það og með samviskubit að tengjast barninu í bumbunni með þessum neikvæða hætti. Ég er stöðugt að undirbúa mig í huganum fyrir það versta, að barnið sé spastískt, þroskaheft eða einhverft. Hvað mun ég gera ef eitthvað er að?  Mun ég ráða við það og hvernig áhrif mun það hafa á sambandið mitt og fjölskylduna mína o.s.frv.  Ég hef ekki rætt þessar áhyggjur við neinn. Ætti ég að gera það?


Komdu sæl.

Áhyggjur upp að vissu marki eru eðlilegar á meðgöngu en þegar þær eru farnar að trufla tengslamyndun milli þín og barnsins finnst mér kominn tími til að leita til fagfólks eftir hjálp.  Ég ráðlegg þér eindregið að tala um þetta við ljósmóðurina þína sem getur farið í gegnum meðgönguna með þér m.t.t. áhættuþátta sem þú hefur, aldur, ættarsaga o.s.frv.  Hún getur svo vísað þér áfram á frekari hjálp frá lækni eða sálfræðingi.

Það er alltaf gott að ræða málin og fá önnur sjónarmið svo ég hvet þig eindregið til þess líka.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
29. september 2009.