Spurt og svarað

25. mars 2008

Jurtakrem á meðgöngu

Komiði sælar og takk fyrir frábæran vef!

Mig langar að spyrja ykkur út í notkun jurtakrema og snyrtivara á meðgöngu. Ég nota lífrænar snyrtivörur frá Dr. Hauschka og Aubrey organics. Þetta nota ég daglega og allar mínar snyrtivörur eru úr þessum flokki og innihalda margar mismunandi jurtir. Þegar ég skoða lista yfir þær jurtir sem ætti að forðast á meðgöngu sé ég að margar þessara jurta, t.d. Aloe vera og angelica, eru í flestum þeim snyrtivörum sem ég nota. Það sem hins vegar kemur ekki fram á listanum er hvort átt er við innvortis eða útvortis notkun.Þekkið þið það? Ég nota hreinsikrem, sjampó og dagkrem sem innihalda nokkur efni sem fram koma á listanum, en er það nóg til að eitthvað af þessum jurtum nái að hafa skaðleg áhrif á fóstrið? Það er talað um að jurtirnar séu hættulegar vegna þess að þær geti valdið samdráttum í leginu og séu hægðalosandi. Ég á þó erfitt með að ímynda mér að virkni þeirra í líkamanum verði þannig ef maður notar þær eingöngu útvortis. Mér finnst erfitt að finna rétta leið í þessum málum en ég nota lífrænar snyrtivörur til að forðast paraben og önnur óæskileg efni úr öðrum snyrtivörum. En í staðinn kemur þetta vandamál með jurtirnar.

Getið þið ráðlagt mér í þessum efnum?

Bestu þakkir,Sólveig.


Sæl og blessuð Sólveig!

Það er erfitt að svara þessu með vissu en mér finnst þó líklegt að þær jurtir sem þú nefnir séu í það litlu magni að þær séu ekki hættulegar á meðgöngu. Þegar verið er að tala um að forðast ákveðnar jurtir að meðgöngu er yfirleitt verið að tala um að taka þær ekki inn eða nota þær markvisst í miklu magni t.d. við ákveðnum kvillum eða vandamálum. Það er t.d. ekki æskilegt að taka inn hvítlaukshylki á meðgöngu en það er sennilega í góðu lagi að nota hvítlauk í matargerð í hæfilegu magni.

Vona að þetta hjálpi eitthvað.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. mars 2008.





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.