Kæfisvefn á meðgöngu

19.10.2012


Ég er komin 28 vikur og ég á það til að vakna á nóttunni við það að ég nái ekki andanum, og gef frá mér sérkennileg hljóð (ekki beint hrotu en samt ekki ósvipað) getur verið að meðgangan valdi kæfisvefni? Nú er ég frekar grönn hef aldrei verið of þung og hef ekkert fitnað (fyrir utan á bumbuna) á meðgöngunni, þannig ég passa ekki beint í þann hóp sem fær oftast kæfisvefn, en það er það helsta sem mér dettur í hug. Getur verið að þetta sé eitthvað annað?


Sæl Rósa, til hamingju með þungunina.

Meðgöngunni fylgja ýmsir fylgikvillar og þar á meðal einkenni sem tengjast svefnmynstri. Góður svefn á meðgöngu er mikilvægur og talinn hafa vanmetin áhrif á orku hinnar fæðandi konu.
Algengt er að barnshafandi konur kvarti yfir svefnleysi og lausum svefni.
En það er líka þekkt vandamál að konur þrói með sér kæfisvefn á meðgöngu, þetta er þó helst þekkt hjá konum í ofþyngd, eru með meðgönguháþrýsting eða sem þjást af meðgöngusykursýki.
Þú þarft kannski að hagræða þér betur, gerist þetta frekar í ákveðinni stellingu?
Ég tel ráðlegt að þú talir við þína ljósmóður í heilsugæslunni og segir henni af þessum kvilla, hún getur veitt persónulegri ráðleggingar.

Gangi þér vel,
Margrét Unnur Sigtryggsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. október 2012