Kælikrem

26.07.2011

Sæl!

Ég er að velta fyrir mér hvaða kælikrem eru örugg að nota á meðgöngu. Má nota t.d biofreeze? Fæ oft mikla verki í hnén.


Sæl og blessuð!

Kælikrem innihalda efni sem eru kælandi þannig að það fer eftir því hvaða efni þau innihalda en virka efnið í Biofreeze er Mentól. Á vefsíðu Biofreeze er barnshafandi konum ráðlagt að ráðfæra sig við fagaðila áður en þær nota Biofreeze. Á vefsíðunni Drugs.com kemur fram sú ráðlegging að nota ekki krem eða áburði á meðgöngu sem innihalda Mentól nema að ávinningur sé meiri en hugsanleg áhætta. Þar er bent á að engar rannsóknir geti sýnt fram á öryggi þess að nota Mentól á meðgöngu. Það er ekki þar með sagt að það sé hættulegt, bara ekki nein vissa um öryggi eins og með svo margt annað.

Yfirleitt er nú betra að nota staðbundin efni til að lina sársauka frekar en lyf ef það er hægt en miðað við þær upplýsingar sem ég hef þá held að þú ættir að ráðfæra til við lækni ef þú ætlar að nota kælikrem.

Þú getur að sjálfsögðu notað kælibakstur eða hitapoka ef þú telur að það hjálpi. Sjúkraþjálfari gæti líka alveg örugglega hjálpað þér og gefið fleiri ráð. Það er líka mikilvægt fyrir þig að forðast allt sem kemur af stað þessum verkjum og reyna að fá bót á þessum vanda.

Vona að þessar upplýsingar komi að gagni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. júlí 2011.