Kaffineysla á meðgöngu

21.12.2009

Mig langar að forvitnast með kaffineyslu á meðgöngu. Er í lagi að drekka einn bolla á dag af kaffi eða er skynsamlegra að hætta.

Kveðja, Anna.


Sæl Anna!

Það er ekki vitað með vissu hvaða áhrif koffín hefur á fóstrið. Rannsóknir hafa þó sýnt að óhófleg neysla á koffíni getur aukið líkur á fósturláti, fyrirburafæðingu og lágri fæðingarþyngd barns en hófleg neysla á koffíni virðist ekki vera skaðleg á meðgöngu. Ein rannsókn sýndi að börn mæðra sem neyttu meira en 500 mg af koffíni á dag á meðgöngunni voru meira vakandi og höfðu hraðari hjartslátt fyrstu dagana eftir fæðingu en önnur börn. Koffín fer yfir fylgjuna til barnsins en ef miðað er við neyta ekki meira en 200 mg af koffíni daglega þá ætti fóstrinu líklega ekki að vera hætta búin. Í einum bolla (u.þ.b. 250 ml) af svörtu tei eru um 45 mg af koffíni en kaffibolli af sömu stærð inniheldur um 60-120 mg af koffíni. Samkvæmt þessu ætti að vera óhætt að drekka u.þ.b. 2 bolla af kaffi á dag og 4 bolla af tei. Koffín er vissulega örvandi efni sem eykur hjartsláttartíðni og efnaskiptahraða og getur valdið svefnleysi, óróleika og höfuðverk. Koffín getur einnig aukið brjóstsviða vegna örvunar á framleiðslu magasýra. Koffín hefur þvagræsandi áhrif að sem þýðir einfaldlega að þú þarft að pissa oftar því líkaminn er að losa sig við vökva og þar af leiðandi er meiri hætta á ofþornun. Samfara þessari vökvalosun tapar líkaminn einnig kalki. Kaffi og te innihalda efni sem gera það að verkum að erfiðara er fyrir líkamann að taka upp járn úr fæðunni. Þetta getur auðvitað haft áhrif því margar barnshafandi konur eru lágar í járni. Ef kaffi eða te er drukkið á milli mála þá hefur þetta minni áhrif á upptöku járnsins.  Það er því ljóst að koffín hefur margvísleg áhrif í mannslíkamanum en eins og áður segir ætti að vera óhætt er drekka kaffi og te í hófi.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. desember 2009.