Kaldreyktur lax, taðreyktur lax

12.12.2007

Kæra ljósmóðir!

Mig langar mikið að fá skilgreiningu á því hvað kaldreyking þýðir varðandi lax.  Er í lagi að borða taðreyktan lax sem er reyktur við hita? Einnig langar mig að vita hvort það sama á við um silung sem veiddur er í vötnum?  Er hætta samfylgjandi því að borða reyktan silung?

Ég sé að þið hafið talað um að ekki sé óhætt að borða ís þar sem hann er gerður úr hráum eggjum.  Hvað er það sem er hættulegt við hrá egg og getið þið nokkuð gefið mér upplýsingar um hvar gerilsneydd egg fást?

Með fyrirfram þökkum, Heiða.

 


 

Sæl Heiða!

Við leituðum til Gríms Ólafssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun og hann sendi okkur eftirfarandi upplýsingar:

„Í laxi getur verið að finna bakteríu sem nefnist Listeria monocytogenes sem getur valdið fósturláti. Við kaldreykingu er hitastig undir 70° C og því ekki nægilegt til þess að eyða þessum bakteríum. Taðreyking er venjulega kaldreyking, þar sem tað, oft blandað sagi, er notað sem reykgjafi. Ég hef ekki heyrt um að tað sé notað við heitreykingu þó það sé ekki útilokað. Hráan fisk almennt ætti að forðast á meðgöngu.

Í heimagerðan ís eru notaðar eggjarauður. Í matvælaiðnaði, s.s. ísgerð, majonesgerð, bakstur o.s.frv. eru notuð gerilsneydd egg.“

Gerilsneyddar eggjahvítur og eggjarauður fást oftast í Fjarðarkaup en gott er að hringja og spyrja áður.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. desember 2007.