Spurt og svarað

22. október 2011

Áhyggjur af minna legvatnsmagni

Sæl og takk fyrir góðan vef!

Ég fór í 20 vikna sónar á Akranesi í síðustu viku. Geng með þriðja barn og vænti fæðingar 21 febrúar 2012.Læknirinn sem skoðaði mig sagðist lítið geta skoðað því ég væri með svo lítið legvatn og ákvað því að senda mig suður. Daginn eftir fer ég í skoðun á fósturgreiningardeildinni og allt lítur vel út hjá barninu, allar mælingar komu vel út og barnið hraust, nema legvatnið var frekar lítið en henni fannst það nú samt ekkert hættulega lítið. Hún gat ekki fundið ástæðu fyrir því af hverju það væri svona lítið en vildi að ég kæmi aftur í skoðun eftir 4-6 vikur. Hún skrifaði á blað til læknisins míns um þetta og skrifar þar að það sé frekar lítið legvatn en þó sennilega innan eðlilegra marka. Þarna kemur einmitt mín hugsun. Mér finnst þetta svar ekki nógu rétt „sennilega innan eðlilegra marka“ svo stendur að dýpsti pollur sé 3,8 cm. Ég fór að sjálfsögðu á netið og reyndi að finna um þetta og sá þá að eðlileg gildi á ekki að vera minna en 5 sm og ekki meira en 20 cm. Ég fór með blaðið til heimilislæknisins míns og sýndi honum því það er engin ljósmóðir þar sem ég bý og spyr hann hvort honum fyndist ég ætti að minnka vinnuna eða hvernig sem það væri því ég væri búin að heyra það að konur með lítið legvatn væru sendar í hvíld. Honum fannst það ekki því sennilega væri legvatnið innan eðlilegra marka. Ég er bara svo óörugg með þetta og datt þess vegna í hug að senda þér bréf og athuga hvort þú vissir eitthvað meira um þetta. Mér finnst alltof langur tími að bíða í 5 vikur og lifa í óvissu með hvort þetta sé virkilega innan eplilegra marka og hvort ég hefði ekki átt að vera send í hvíld. Hérna er linkurinn sem ég fann.


Sæl!

Legvatnsmagn endurspeglar starfsemi nýrna og fylgju, og í þínu tilfelli virðist hvort tveggja vera í lagi þar sem stærð fóstursins og líffæraskoðun var eðlileg. Eðlilegt legvatnsmagn er mælt í sentimetrum. Leginu er skipt í fjóra hluta og dýpsti pollur í hverjum fjórðung mældur og samanlagt úr fjórum pollum er eðlilegt að vera með 16 sentimetra +/- 5 sm frá viku 24-37. Dýpsti pollur hjá þínu fóstri við 21 viku er 3,8cm sem er alveg innan eðlilegra marka. Þar sem minnkað legvatn getur verið vísbending um vaxtarseinkun er eðlilegt að þér hafi verið boðið að koma aftur eftir 4 vikur, til að fylgjast með vexti og legvatnsmagni. Það hefur ekki neina þýðingu að gera það fyrr því það verður að líða þessi tími á milli mælinga til að sjá marktækan mun. Langlíklegast í þínu tilfelli sé um eðlilegt frávik sé að ræða. 

Gangi þér vel.

Kveðja,

María J. Hreinsdóttir,
ljósmóðir fósturgreiningardeild,
22. október 2011.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.