Kalk og pistasíuhnetur

26.09.2007

Ég er komin rúmar 6 vikur og drekk ekki mjólk og borða eiginlega engar mjólkurvörur. Ég var að spá í hvort það væri ekki alveg tilvalið að taka kalk og hvað mikið þá? Svo er annað. Ég er alveg óð í pistasíuhnetur og var að spá í hvort að það gæti nokkuð verið skaðlegt fyrir barnið?

Bestu kveðjur og takk fyrir frábæran vef!


Sæl og blessuð!

Kalk hefur þýðingu fyrir myndun beina og tanna; stuðlar að betri nýtingu járns, tekur þátt í blóðstorknun og stuðlar að reglulegum hjartslætti.  Kalk er m.a. að finna í mjólkurvörum, sardínum, grænum baunum, tófú, sojabaunum, hnetum og fræjum.

Barnið hefur mesta þörf fyrir kalk á síðasta þriðjungi meðgöngu þegar vöxtur beinagrindar er sem mestur og myndun tanna er í fullum gangi.  Líkami móðurinnar virðist gera ráð fyrir aukinni þörf á kalki því hormónin human chorionic somatomammantropin og estrógen eiga sinn þátt í að auka upptöku kalks og hindra útskilnað með þvagi.  Þetta er allt gert tímanlega á meðgöngunni til að búa í haginn fyrir síðasta þriðjung meðgöngunnar.  Ráðlagður dagskammtur af kalki eru 1200 mg. á meðgöngu.

Pistasíuhnetur eru mjög hollar. Þær eru próteinríkar, innihalda holla fitu. Í 100 grömmum er u.þ.b. 110 mg af kalki.

Ef þú telur að þú fáir ekki nægjanlegt kalk úr fæðunni þá er sniðugt fyrir þig að taka inn kalktöflur.

 

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. september 2007.