Karlmenn og kynlíf á meðgöngu

14.03.2008

Hæ,

Ég og maðurinn minn höfum verið í vandræðum með kynlífið okkar á meðgöngunni. Málið er að hann vill alls ekki stunda kynlíf og hefur ekki viljað það mest alla meðgönguna því honum þykir það rosalega óþægilegt þrátt fyrir að ég útskýri fyrir honum að barninu verði ekkert meint af.

Honum finnst líka óþægilegt að snerta mig sama hvað ég bið hann um það því ég þrái ekkert meira en kynlíf og er að verða brjáluð á þessu og þetta hefur skapað mikil rifrildi á milli okkar, sérstaklega þar sem ég saka hann um framhjáhald sem ég veit að er rangt af mér og svo hefur þetta líka áhrif á hvernig ég sé sjálfan mig og finnst ég vera ógeðslega feit og vildi óska þess stundum að ég væri ekki ófrísk. Eru margir menn svona þegar konur þeirra eru ófrískar og er e-h sem ég get gert því trúið mér ég hef reynt allt.


Komdu sæl

Ég skil að þetta er erfitt ástand en þið þurfið að tala um líðan ykkar á góðum nótum án þess að ásaka hvort annað.  Reynið að tala saman um hvernig ykkur líður, hvað þið viljið og hvað ekki og kannski getið þið komist að einhverju samkomulagi.  Ef ekki getur verið að þið þurfið frekari hjálp t.d. frá ráðgjafa.

Hér á síðunni er grein um líðan föður á meðgöngu sem ég ráðlegg þér að lesa því tilfinningar verðarndi feðra eru mismunandi og þetta er einmitt eitt af því sem kemur stundum upp.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
14. mars 2008.