Kíví ávöxtur á meðgöngu

17.02.2010

Sælar ljósmæður!

Mér datt í hug að spyrja ykkur hvort þið hefðuð heyrt að ófrískar konur ættu að forðast að borða kíví á meðgöngu vegna hættu á að barnið fái ofnæmi?

Kveðja, Eva.


Sæl og blessuð!

Ég hef rekist á upplýsingar sem ráðleggja barnshafandi konum að borða ekki kíví en ég hef ekki séð nein rök fyrir því og ég veit ekki hvað er á bak við þessar upplýsingar. Heilbrigðisyfirvöld hafa a.m.k. ekki séð neina ástæðu til þess að ráðleggja konum frá því að borða kíví á meðgöngu. Ég hef líka séð upplýsingar þar sem barnshafandi konur eru hvattar til að borða kíví vegna þess hve vítamín- og næringarríkt það er. Ég hallast frekar að þeirri skoðun.

Kíví ávöxturinn er álitinn mjög hollur og oft nefndur sem ein af þessum svokölluðu ofurfæðutegundum sem hafa hátt næringar- og vítamíngildi og eiga að stuðla að auknu heilbrigði. Kíví inniheldur mikið C-vítamín (meira af C-vítamíni í einu kíví en einni appelsínu) og er mjög trefjaríkt. Það er talið bæta upptöku næringarefna í meltingarveginum og bæta meltinguna. Það inniheldur talsvert magn af kalki og er talið hafa góð áhrif á svefn.

Kíví-kveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
17. febrúar 2010.

Heimildir;
http://healthmad.com/nutrition/why-kiwi-fruit-is-so-good/
http://www.whattoexpect.com/pregnancy/eating-well/week-11/big-nutrition-small-packages.aspx