Spurt og svarað

17. febrúar 2010

Kíví ávöxtur á meðgöngu

Sælar ljósmæður!

Mér datt í hug að spyrja ykkur hvort þið hefðuð heyrt að ófrískar konur ættu að forðast að borða kíví á meðgöngu vegna hættu á að barnið fái ofnæmi?

Kveðja, Eva.


Sæl og blessuð!

Ég hef rekist á upplýsingar sem ráðleggja barnshafandi konum að borða ekki kíví en ég hef ekki séð nein rök fyrir því og ég veit ekki hvað er á bak við þessar upplýsingar. Heilbrigðisyfirvöld hafa a.m.k. ekki séð neina ástæðu til þess að ráðleggja konum frá því að borða kíví á meðgöngu. Ég hef líka séð upplýsingar þar sem barnshafandi konur eru hvattar til að borða kíví vegna þess hve vítamín- og næringarríkt það er. Ég hallast frekar að þeirri skoðun.

Kíví ávöxturinn er álitinn mjög hollur og oft nefndur sem ein af þessum svokölluðu ofurfæðutegundum sem hafa hátt næringar- og vítamíngildi og eiga að stuðla að auknu heilbrigði. Kíví inniheldur mikið C-vítamín (meira af C-vítamíni í einu kíví en einni appelsínu) og er mjög trefjaríkt. Það er talið bæta upptöku næringarefna í meltingarveginum og bæta meltinguna. Það inniheldur talsvert magn af kalki og er talið hafa góð áhrif á svefn.

Kíví-kveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
17. febrúar 2010.

Heimildir;
http://healthmad.com/nutrition/why-kiwi-fruit-is-so-good/
http://www.whattoexpect.com/pregnancy/eating-well/week-11/big-nutrition-small-packages.aspx

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.