Spurt og svarað

30. nóvember 2007

Kláði á meðgöngu

Góðan dag.

Mig langar að spyrja um eitt atriði. Ég er komin 37 og hálfa viku og síðustu daga hef ég verið með svakalega mikin kláða í húðinni. Nánast allstaðar. Inní lófum, á fótum, á maga og höndum. Ég get ekki tengt þetta við neitt sérstakt. Er þetta eðlilegt, ég verð gjörsamlega viðþolslaus af kláða.

Einhver ráð?

Kveðja Kláðamús

 


Komdu sæl Kláðamús.

Kláði er algengur á meðgöngu sérstaklega á kúlu og fótum.  Húðkláði er oftast verstur á nóttinni og er algengastur á þriðja þriðjungi meðgöngu. Orsakir hans eru talin tengjast hormónaframleiðslu á meðgöngu. 

Helstu ráð við kláða eru að, nota milda sápu og skola hana vel af húðinni eftir þvott, fara ekki í mjög heitt bað, vera í víðum fötum úr náttúrulegum efnum til að koma í veg fyrir svitamyndun, nota góð kælikrem eða rakakrem eftir bað og eins oft og þér finnst.  Gott er að hafa ekki of heitt í svefnherberginu, sofa með þunna ábreiðu og opna glugga eftir þörfum.  Nota mild þvottaefni fyrir föt og skola vel allan þvott sem kemst í snertingu við húðina.  Gott er að klippa neglur til að forðast klór og nudda frekar með lófanum ef kláðinn er ómótstæðilegur.  Gott er að forðast kaffi, heita drykki og alkóhól sem veldur æðaútvíkun.  Sumar konur þurfa að nota kláðastillandi lyf eins og Tavegyl eða pólaramin og jafnvel svefnlyf ef kláðinn truflar svefn.

Kláði á seinnihluta meðgöngu getur líka stafað af auknu magni gallsýra í blóði.  Það er mælt með blóðprufu og stundum þurfa konur að fara á lyf við þessu ástandi.  Ef þetta er rauninn er kláðinn oft út um allt og versnar oft með tímanum.  Því er nauðsynlegt að tala um þetta við ljósmóðurina sína sem sendir þig svo til læknis ef ykkur finnst það þurfa.  Konur með Gallstasa eins og þetta er kallað þurfa að fylgjast vel með hreyfingum barnsins þar sem þetta getur haft áhrif á það, sérstaklega undir lok meðgöngunnar.

Vona að þetta svari spurningunni.

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
30.11.2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.