Kláði í brjóstum á meðgöngu

04.04.2007

Ég er komin 23 vikur á leið og langar að spyrja aðeins um kláða í brjóstum. Mér byrjaði að klæja í brjóstin mjög snemma á meðgöngu og er þetta að valda mér óþægindum þar sem það er ekki gott að klóra sér í brjóstin þá sérstaklega geirvörturnar. Þetta er ekki stöðugt heldur kemur og fer og ef ég klóra mér ekki hættir þetta, en eykst ef ég klóra mér. Ég hélt að þetta væri eðlilegu hluti af meðgöngu (þetta er mín fyrsta) en er farin að efast þar sem þær konur sem ég hef rætt við kannast ekki við þetta.

Takk fyrir góðan vef.


Sæl og blessuð.

Ég veit ekki hvaða konur þú hefur hitt á að tala við en allavega er kláði á brjóstum tiltölulega algeng kvörtun á meðgöngu. Það er ekkert óeðlilegt á seyði. Þetta tengist breytingunum sem eru að verða á innri gerð brjóstanna og hafa áhrif alveg út á húðina. Það er samt rétt að nefna að það er til dæminu að konur fái sveppasýkingu á vörtur á meðgöngu. Það er reyndar sjaldgæft en þar sem einkenni eru svipuð gæti verið sniðugt hjá þér að láta einhvern vanan kíkja á vörturnar. Bara svona til öryggis.

Gangi þér vel.     

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. apríl 2007.