Kláði og sár undir maga

13.11.2012
Komið þið sælar
Ég er með svolítið vandamál að mínu mati. Ég er frekar frjálsleg í vexti og er komin 16 vikur á leið, vandamálið mitt er að ég er með sár undir bumbu og það er komin vond lykt þaðan, ég er með tissjú þarna undir og skipti um það á hverjum degi og nota ekki sápu þegar ég þríf mig heldur bara skola með vatni, svo er ég með mikinn kláða og er að berjast við að klóra mér ekki. Svo annað vandamál ég bý í Danmörku og tala ekki tungumálið vel er frekar nýflutt hingað er eitthvað sem ég get gert til að laga þetta?
Sæl!
Miðað við lýsingu þína finnst mér líklegt að þú sért með sveppasýkingu í þessari húðfellingu. Ég mæli með að þú látir lækni kíkja á þig, það er oftast ekki nóg að þvo með vatni og nota tissjú og líklegt að þú þurfir meðferð.
Það er mikilvægt fyrir þig að halda húðinni hreinni og þurri meðan á meðferð stendur og eftir að henni lýkur. Meðferðin er oftast sveppaeyðandi krem eða púður til að nota á húð en einnig er hægt að setja þarna grisju sem heitir „Sorbact“ sem fæst í apótekum. Grisjan lokar bakteríur og sveppi í þráðum sínum og hindrar fjölgun þeirra, hana þarf að skipta um 1-2 sinnum á dag. Eftir að meðferð lýkur má nota grisjuna áfram til að fyrirbyggja sýkingu.
Þú ætti að geta fengið útskýrirngar á ensku hjá lækni eða ljósmóður ef danskan vefst fyrir þér.

Gangi þér vel.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfærðingur,
13. nóvember 2012