Spurt og svarað

05. maí 2011

Klínískar leiðbeiningar við vanstarfsemi skjaldkirtils

Góðan daginn.

Mig langar til að senda inn fyrirspurn um hvort hérlendis séu ekki til klínískar leiðbeiningar fyrir ófrískar konur sem eru með
vanvirkan skjaldkirtil?  Þannig er að ég er ófrísk (10 vikur) með Hashimoto´´s skjaldkirtilssjúkdóm og hef tekið 200
míkró af levaxíni daglega s.l. 5 ár. TSH gildið var síðast mælt í apríl 2010 og var þá fínt. Ég fór til læknis þegar ég var komin ca. 6 vikur á leið og sagði honum stöðu mína. Hann sagði að það þyrfti ekki að mæla TSH gildið hjá mér fyrr en í 12 viku og þá HUGSANLEGA auka við hormónaskammtinn. Stuttu seinna talaði ég við ljósmóður sem sagði það sama - ekki fyrr en á 12 viku - eða í 1. blóðprufu og þ.a.l. ákvað ég að hætta að hafa áhyggjur af því hvernig efnaskiptin hjá mér myndu breytast (allavega fram að 12. viku). Uppá síðkastið hef ég fundið fyrir vaxandi einkennum frá skjaldkirtlinum og er eiginlega alveg handviss um að
ég þurfi að auka skammtinn. Fer loksins í þessa 1. blóðprufu á þriðjudaginn þar sem ég fæ það staðfest. Í kjölfar þessarar auknu þreytu fór ég að lesa mér til um hvernig hypothyroidism er meðhöndlaður á meðgöngu annars staðar og þar sá ég, mér til mikillar skelfingar, að magn efnaskiptahormónsins levaxins hefði átt að vera búið að auka mun fyrr í meðgöngunni - eða í hið minnsta hefði átt að vera búið að fylgjast betur með því. Þær greinar sem ég er að vitna í eru ekki einhverjar ruglgreinar
af netinu heldur vísindagreinar sem birtar hafa verið í mjög virtum vísindatímaritum.  Nú er ég bæði mjög reið yfir því sem ég álít vera slök vinnubrögð míns læknis og ljósmóður sem og hrædd um að þetta ónóga eftirlit hafi nú þegar haft neikvæð áhrif á þroska fósturins.

Bestu kveðjur


Komdu sæl.

Klínískar leiðbeiningar varðandi þetta eru ekki til á Íslandi.  Mæðravernd Þróunarstofu heilsugæslunnar hefur nýlega sent út vinnuleiðbeiningar til hægðarauka fyrir þá sem starfa innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðinsins sem segja:

Mæla S-TSH við fyrsta tækifæri á meðgöngu.

Ef TSH er yfir 3mU/L skal auka thyroxinskammt

Markmið er að halda TSH undir 3 mU/L

Mæla S-TSH á 6 vikna fresti ef skammtur er óbreyttur, en 4 vikum eftir skammtabreytingu.

Hættan sem fóstrinu stafar af ómeðhöndlaðri hypothyresu móður eru m.a. vaxtarskerðing, fyrirburafæðing, meðgöngueitrun, og þroskaskerðing en þau geta líka sloppið mjög vel frá annars alvarlegu ástandi móður.

Þar segir líka að ef hypothyrosa gefur ekki verið vel meðhöndluð á meðgöngu ætti að fylgja henni eftir með vaxtarsónar á 3. trimestri og etv vísa í áhættumæðravernd.

Aftur verð ég að benda á að þessar leiðbeiningar eru nýjar og hugsaðar sem vinnuleiðbeiningar til hagræðingar á HH en ekki viðurkenndar klínískar leiðbeiningar frá Landlækni.  Þær eru því m.a. ekki notaðar á öllu landinu.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
5. maí 2011.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.