Klyx á meðgöngu

30.07.2007

Ég veit að það er í lagi að nota microlax á meðgöngu og klyx til úthreinsunar fyrir fæðingu. En ég finn hvergi upplýsingar um það hvort í lagi sé að nota klyx á meðgöngu. Það er nefnilega allt stopp, búið að vera það lengi og ekkert dugir til að leysa vandan.  Búin að prófa allt :(


Takk fyrir að leita á ljósmóðir.is og afsakaðu seinagang með svar. Eins og þú líklega veist þá er hægðatregða eða „hægari meltingarstarfsemi” einn algengasti fylgifiskur meðgöngu. Besta ráðið til að draga úr einkennum er að reyna að vera dugleg að drekka vatn, borða trefjaríka fæðu og hreyfa sig hæfilega. Stundum reynast þessi þjóðráð þó ekki nægjanleg og þá hafa margar konur gripið til þess að taka t.d. sórbítól, laxerólíu eða husk til lengri eða skemmri tíma.
Það er alltaf „mýkri” leið að reyna fyrst að leysa hægðatregðuvandamál „ofan frá”, en stundum getur reynst nauðsynlegt að leita á náðir úthreinsunarlyfja. Rétt eins og við sjálfa fæðinguna er óhætt að nota microlax og klyx á meðgöngunni, en ég ráðlegg þér eindregið að stilla notkun þess mjög í hóf og reyna að nota aðrar leiðir til að koma í veg fyrir að hægðatregðan verði raunverulegt vandamál.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Steinunn H.Blöndal,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
30. júlí 2007.