Köfnunartilfinning þegar liggur

07.04.2008

Vil byrja á því að segja takk fyrir alveg frábæra síðu.

En ég er komin 33 vikur og 3 daga á leið og ég á alveg svakalega erfitt með að sofa af því að mér líður eins og ég sé að kafna. Ég get eiginlega ekki legið niðri út af þessu, kúlan hjá mér er ekkert rosalega stór. Er þetta einhvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af?

 


Komdu sæl

Þú talar ekki um hvort þetta er þegar þú liggur á bakinu eða bara alltaf.  Ef þessi tilfinning kemur þegar þú liggur á bakinu er það eðlilegt þar sem aukinn þungi þrýstir á stóru æðarnar í bakinu og þá dregur úr blóðflæði til hjartans og lungnanna.  Þá er þetta bara spurning um að sofa á hliðinni.  Ef þessi tilfinning kemur líka þegar þú liggur á hliðinni ættir þú að tala betur um þetta við ljósmóðurina þina.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. apríl 2008.