Kollurinn er óskorðaður

12.12.2012
Ég fékk að vita í dag að kollurinn á barninu mínu er óskorðaður. Sem sagt ef ég missi legvatnið á ég að leggjast niður og hringja á 112. Mig langar að fá fleiri upplýsingar um þetta. Eins og hvað ég á ekki að eða má ég ekki gera? Og hvað þýðir þetta? Ég er með mjög miklar áhyggjur. Má ég ekki stunda kynlíf?Sæl!
Þú þarft ekki að hafa áhyggjur. Þetta þýðir einfaldlega að kollur barnsins á eftir að færast neðar í grindina. Ef legvatnið fer skyndilega þarft þú að leggjast strax, ef þú ert ekki liggjandi. Ástæðan fyrir því að þú þarft að leggjast er að þegar kollur barns er ekki skorðaður er viss hætta er á að naflastrengurinn falli framfyrir koll barnsins þegar vatnið fer. Við þetta getur naflastrengurinn klemmst og lokað fyrir blóðflæði til barnsins.
Þú þarft ekki að breyta neinu né forðast kynlíf, ljósmóðirin þín athugar þetta svo aftur í næstu skoðun. Í mæðravernd má spyrja að hverju sem er og engin spurning vitlaus eða röng, ég hvet þig þess vegna til að fá útskýringar ef það er eitthvað sem vefst fyrir þér.Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. Desember 2012